148. löggjafarþing — 18. fundur,  30. jan. 2018.

óháð, fagleg staðarvalsgreining fyrir nýtt þjóðarsjúkrahús.

88. mál
[16:18]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Hæstv. forseti. Þessi tillaga sem hér er til umræðu er kannski fyrsta eða stærsta tilraunin til að aflétta 20 ára þöggun um staðsetningu þjóðarsjúkrahúss við Hringbraut. Gerðar hafa verið nokkrar kannanir og nokkrar skýrslur hafa verið gefnar út. Talað er um að þær séu allar samhljóða og lengi í þessari umræðu var talað um að þær væru allar samhljóða. Nú er búið að reka það ofan í menn vegna þess að þær eru það alls ekki.

Sú fyrsta gerir ráð fyrir að betra sé að byggja í Fossvogi en við Hringbraut. Ég man ekki hvort það er í skýrslu númer tvö eða þrjú sem segir: Ef ekki er hægt að byggja neins staðar annars staðar en við Hringbraut skulum við byggja við Hringbraut. Á þetta hafa menn ekki hlustað og ekki horft. Það er ekkert skrýtið að mauraþúfuástand skapist, eins og þegar maður sparkar í mauraþúfu, þegar maður kemur fram með tillögur eins og þessa, sem hróflar við áratugavinnu sumra við þetta mál og áframhaldandi áratugavinnu þeirra sömu aðila áfram. Ég skil vel að starfsmenn og stjórnendur ohf.-sins, sem eiga nú að taka við þessari byggingu, séu ekki sérlega glaðir með þá tillögu sem hér er lögð fram.

Það er hins vegar alveg ótrúlegt að nú þegar búið er að hrekja röksemdir þeirra sem vilja byggja við Hringbraut — hluti þeirra er á hröðum flótta frá sjálfum sér og eru ekki einu sinni hér við umræðuna og verða örugglega ekki við atkvæðagreiðsluna þegar þar að kemur — sé þetta fólk viljugt til að hella 100 milljörðum kr. niður í Vatnsmýrina eða þar í grennd. Menn segja: Þetta er bara fyrsta sjúkrahúsið, við ætlum bara að hafa þetta meðan verið er að byggja hitt. Ég held að það hljóti að vera nokkurs konar met í sokknum kostnaði að hella 100 milljörðum í slíkt verkefni. Ég trúi ekki öðru.

Menn segja líka: Reisum meðferðarkjarnann og allt verður gott. Ókei. Þetta stenst ekki heldur. Vegna þess að ef núverandi áætlanir verða að veruleika verða sjúklingar á Landspítalanum á byggingarsvæði næstu 30 árin. Því þegar meðferðarkjarninn er tilbúinn, þá er ekki öllu lokið. Aldeilis ekki. Þá þarf að taka til við að endurbyggja eða endurnýja öll gömlu húsin á torfunni. Byggingarframkvæmdir verða á reitnum næstu 20–30 árin, hvað sem menn segja.

Síðan er sagt: Þetta kemur til með að tefja málið um 10–15 ár. Hver fagmaðurinn af öðrum hefur lýst því yfir að framkvæmdatími við byggingu þjóðarsjúkrahúss sem slíks sé um það bil fjögur ár. Sjálfur framkvæmdatíminn. Menn segja að þetta tefji málin um 10–15 ár. Ég hlýt að spyrja: Hvað eigum við þá að gera við þessi 11–15 ár sem menn segja að töfin sé? Er það til þess að rífast um staðarval? Til þess að skipuleggja? Þetta er svo galið. Það er ekki nokkur einasti vandi að setja saman skýrslu á einhverjum 8–12 mánuðum um hvar sjúkrahús geti verið til framtíðar og það tefur ekki neitt því að sá tími sem í þetta fer kemur til baka á framkvæmdatímanum því það er miklu fljótlegra að byggja þar sem ekkert er fyrir.

Ég hef líka spurt fagmenn hvort það sé einhver töf á hönnunartíma að fara með sjúkrahúsið annaðhvort á Vífilsstaði eða að Keldum. Menn segja: Nei, það er hægt að halda áfram að hanna þetta meðferðarhús og síðan þarf að taka tillit til aðstæðna á byggingarstað eins og landhalla og undirstöðu, þ.e. klöpp eða sandur eða slíkt. En að öðru leyti er á einfaldan hátt hægt að segja: Það er hægt að moka holu og byggja húsið hvar sem er í sjálfu sér. Þetta tefur málið ekki nokkurn skapaðan hlut.

Á þessum tíma hefur þó það áunnist að þeir sem hafa haldið því fram að Landspítalinn eigi að vera við Hringbraut til framtíðar eru nú búnir að viðurkenna að það er ekki rétt, þeir hafa verið að halda fram blekkingum allan tímann. Því sjúkrahúsið sem á að reisa við Hringbraut, það er ekkert nýja þjóðarsjúkrahúsið. Nei, það er bara orðið sjúkrahúsið sem á að nota meðan verið er að byggja nýja þjóðarsjúkrahúsið. Við ætlum að byggja tvö. Það er ekki að spyrja að rausnarskap Íslendinga þegar mikið liggur við enda eigum við svoddan sand af peningum.

Í umræðum í síðustu viku sagði hæstv. heilbrigðisráðherra, sem er nú ekki viðstödd þessa umræðu, og mér þykir það leitt, að þær hugmyndir sem fram komu hér í sérstakri umræðu fyrir viku eða svo væru hættulegar hugmyndir. Ég spyr mig: Hættuleg hugmynd fyrir hvern? Er það hættuleg hugmynd fyrir sjúklinga að byggja nýtt þjóðarsjúkrahús á betri stað? Nei. Það kemur alla vega í veg fyrir að sjúklingar verði geymdir á byggingarsvæði næstu 30 árin. Er þetta hættuleg hugmynd fyrir starfsmenn? Ég held ekki. Það tekur starfsmenn Landspítalans núna 20 mínútur á hverjum einasta degi, af dagvakt klukkan fjögur, að komast út af bílastæði Landspítalans út á Snorrabraut. Þá eiga þeir eftir að fara heim. Fólk sem býr í 104 eða 105 í Reykjavík er 40 mínútur á leiðinni af vinnustaðnum sínum og heim. Sama gerist á morgnana.

Ég hugsa með mér: Hvað verður þá um aumingja manninn í Norðlingaholtinu sem fær hjartaslag? Það þarf að keyra hann í gegnum þvera Reykjavík á gamla Hringbrautarsjúkrahúsið, nýja þjóðarsjúkrahúsið. Hvað verður um hann? Það er ekki verið að hugsa um hann í þessu, held ég. Er verið að hugsa um aðstandendur? Mér hefur fundist, í allri þessari umræðu, að menn séu að tala um að það sé jú virkilega erfitt fyrir starfsfólk að komast í og úr vinnu. Hárrétt. En við skulum ekki gleyma því að það eru nokkur hundruð ef ekki þúsund aðstandendur sem koma í heimsókn til sinna nánustu sem liggja á spítalanum dag hvern. Ég man eftir umræðu fyrir nokkrum árum þar sem skapvond Samfylkingarkona var í sjónvarpsþætti að velta því fyrir sér hvernig menn ættu að komast að og frá þessum spítala. Jú, hún sagði: Menn hjóla bara. Og ég hugsaði með mér: Já, yfirleitt eru nú sjúklingarnir komnir af léttasta skeiði, þ.e. meiri parturinn er aðeins við aldur. Ég sá fyrir mér gamla konu, sem ætlaði að heimsækja manninn sinn á spítalann, á hjóli með konfektkassa á bögglaberanum og blómvönd í munninum, bítandi saman kjálkunum. Og ég verð að viðurkenna að mér fannst það ekki mjög falleg framtíðarsýn, ég skal bara viðurkenna það hér og nú.

Ég velti fyrir mér aftur: Hverjum er þessi hugmynd hættuleg? Ég held að ég sé kominn að niðurstöðu. Hún er ekki hættuleg sjúklingum eða starfsmönnum eða aðstandendum. Ég held að hún sé hættuleg stjórnmálamönnum sem þora ekki að segja: Við höfðum rangt fyrir okkur, gerum þetta upp á nýtt. Hún er náttúrlega stórhættuleg embættismönnum sem eru búnir að hafa það að lifibrauði í nokkra áratugi að vinna að þessari hugmynd og sjá fram á gósentíma næstu 20–25 árin meðan verið er að vinna að henni áfram, ohf. og félagar. Þar er hættan. En það er ekki verið að hugsa um hina raunverulegu hættu. Er þessi hugmynd hættuleg ríkissjóði? Nei, hún er þvert á móti mjög hagfelld fyrir ríkissjóð því að hún gerir ekki ráð fyrir að menn helli niður 100 milljörðum í sjúkrahús sem á ekki að nota nema í 20 ár.

Þeir sem hafa þetta mál með höndum, í þessari ríkisstjórn, eru þekktir að því að hafa alveg verið til í að spandera peningum landsmanna, jafnvel leggja skuldaklafa á þessa þjóð í 30 ár vegna kjarkleysis síns. Það er ekkert nýtt. Þetta er bara önnur birtingarmynd á því. Menn þora ekki að taka nýjar ákvarðanir, hafa ekki kjark til þess. Þá eru þeir til í að hella 100 milljörðum niður í Vatnsmýrina, einnota. Það er auðvelt að vera örlátur á annarra manna fé, sagði ágætur gegn embættismaður sem ég vann einu sinni hjá. Þetta er skýrt dæmi um það. Skítt með alla skynsemi, við skulum hella 100 milljörðum niður í Vatnsmýrina hvað sem tautar og syngur.

Herra forseti. Ef ég tala gáleysislega þykir mér það leitt. Vegna þess að þetta mál er miklu erfiðara og alvarlega en svo að það eigi að tala gáleysislega um það. Það er mjög alvarlegur hlutur að hella niður 100 milljörðum af almannafé til einnota. Ábyrgð þeirra sem vilja gera það er mikil og hún verður ekki gleymd meðan þetta einnota sjúkrahús verður notað — ef það rís þá einhvern tíma, sem ég vona að verði ekki.

Herra forseti. Ég vona að skynsemi þingmanna ráði för nú og þeir samþykki þessa tillögu um staðarval og komi í veg fyrir það slys sem er yfirvofandi í Vatnsmýrinni.