148. löggjafarþing — 18. fundur,  30. jan. 2018.

óháð, fagleg staðarvalsgreining fyrir nýtt þjóðarsjúkrahús.

88. mál
[16:47]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa ræðu. Hún var eins og hans var von og vísa yfirgripsmikil og hógvær og kom að kjarna málsins.

Það er eitt sem mig langar til þess að biðja hv. þingmann að árétta, eitt eða tvennt. Það er í fyrsta lagi að hagkvæmni af núverandi staðsetningu er 3 milljarðar kr., sem er nú eins og rúsínur í hveitisekk í samanburði við rekstur spítalans alls. Mig langar aðeins til þess að biðja hv. þingmann að fara betur yfir það.

Mig langar líka til þess að biðja hann um að gefa mér stutt komment, með leyfi forseta, um það að þó framkvæmdin sé fullfjármögnuð þá mæli ekkert gegn því að framkvæmdatíminn sé samþjappaður og fjármögnunin sem er til haldi sér, vegna þess að sú fjármögnun sem nú er til reiðu fyrir byggingu nýs sjúkrahúss er ekki neinn landssímapeningur, þetta eru peningar úr ríkissjóði Íslands sem fara ekki neitt ef fjárheimildin er til staðar.

Mig langar rétt aðeins til að biðja hv. þingmann að fara yfir þessi tvö atriði aftur og varpa enn þá meira ljósi á þau.