148. löggjafarþing — 18. fundur,  30. jan. 2018.

óháð, fagleg staðarvalsgreining fyrir nýtt þjóðarsjúkrahús.

88. mál
[17:24]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Bara þannig að ég skilji rétt. Ég skil talsmenn tillögunnar þannig að það valdi ekki töfum á uppbyggingu á því svæði sem nú þegar er til staðar við Hringbraut, þ.e. ég heyri engan ágreining um það að byggja upp þá aðstöðu sem er nú þegar við Hringbraut, laga þar það sem laga þarf. Það sem mér heyrist er það, jú vissulega, menn vilja byggja nýjan spítala annars staðar. Ég í huganum gef mér Fossvog þótt það sé ekki sjálfgefið fyrir fram. En það sem ég átta mig ekki á er hversu veigamikill hluti það er að bíða með þennan meðferðarkjarna, hvað það þýðir fyrir heilsu Íslendinga og fyrir aðgengi þeirra að heilbrigðisþjónustu. Hversu miklu verri verður hún í hversu langan tíma? Það er spurningin sem ég velti fyrir mér núna. Ef verið er að tala um nýjan spítala frá grunni erum við þá að tala um tíu ár, ef við gefum okkur að það taki tíu að byggja nýjan spítala? Eða er hægt að byrja á honum fyrr og taka hann í notkun, eða hvað? Ég er ekki fræðingur á þessu sviði. Það er þess vegna sem ég spyr hv. þingmann.