148. löggjafarþing — 19. fundur,  31. jan. 2018.

stjórn fiskveiða.

6. mál
[15:59]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir að fara yfir þetta frumvarp. Þó svo að stjórnarandstaðan sé sammála um að ríkisstjórnin sé ekki á vetur setjandi er ýmislegt sem okkur greinir á um þegar kemur að einstökum málum. Ég hef mikinn fyrirvara á þessu máli. Það sem mig langar að spyrja hv. þingmann út í er að í frumvarpinu stendur að ráðherra skuli með reglugerð setja nánari reglur um framkvæmd útboðsins. Hafa flutningsmenn einhverja hugmynd um hvernig framkvæmd útboðsins geti verið? Það stendur líka í frumvarpinu að í útfærslu tilboðsleiðar, það er reyndar talað bæði um útboð og tilboð í frumvarpinu, sé auðvelt að taka tillit til byggðasjónarmiða, koma í veg fyrir samþjöppun og virða sérstöðu minni útgerða. Það er hins vegar ekki gerð nein tilraun til að útskýra það nánar eða rökstyðja hvað er átt við með því. Því er eðlilegt að kalla eftir því hvernig þetta eigi að tryggja byggðasjónarmið eða taka tillit til þeirra, koma í veg fyrir samþjöppun og slíkt. Ég veit ekki betur en að í Færeyjum, sem vísað er til í frumvarpinu, hafi alla vega fyrsta útboðið gefið merki um mikla tilhneigingu til samþjöppunar. Við vitum líka að þeir sem eiga peninga eru sterkari, geta boðið. Það væri áhugavert að heyra frá flutningsmönnum frumvarpsins hvernig þeir hyggist tryggja að slíkt gerist ekki.

Síðan er talað um Norðmenn sem góða fyrirmynd. Ég vil aðeins að fræðast um það. Hvað hafa Norðmenn verið að gera í þá veru?