148. löggjafarþing — 19. fundur,  31. jan. 2018.

stjórn fiskveiða.

6. mál
[16:01]
Horfa

Flm. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna. Við flutningsmenn þessa frumvarps útfærum ekki reglurnar heldur segjum að það þurfi að útfæra reglur fyrir útboðið innan ráðuneytisins áður en hafist er handa. Það er auðvitað algengt að svo sé gert. En við höfum haft samband við sérfræðinga um þetta, m.a. bandaríska sem sendu reyndar inn umsögn þegar við vorum að tala um makrílfrumvarpið á sínum tíma. Þá sendi bæði bandarískur sérfræðingur í útboðum og norskur sérfræðingur í útboðum sem aðstoðaði Færeyinga á sínum tíma, inn umsögn þar sem þeir fóru vel yfir að það er hægt að ná öllum þeim pólitísku markmiðum sem við viljum ná í gegnum reglur sem við setjum við útboðið. Við erum ekki sérfræðingar í útboðum, þingmennirnir sem standa að frumvarpinu. En við segjum að það eigi að útbúa reglur og taka tillit til þessara sjónarmiða.

Já, það er rétt, þegar Færeyingar gerðu sína fyrstu tilraun með útboð varð niðurstaðan sú að það voru stór útgerðarfyrirtæki sem fengu kvótann. Hins vegar voru smærri og nýjar útgerðir sem buðu í. Þær voru þá alla vega með, fengu að vera með í leiknum þótt niðurstaðan hafi orðið þessi.

Þegar við tökum viðbótaraflaheimildirnar og dreifum þeim á þá sem eiga kvóta fyrir fer líka mesti hlutinn til þeirra sem eru stærstir. Þannig er það. Við höfum stundað það hér að láta viðbótaraflakvótann að stærstum hluta til þeirra sem eru stærstir. Það er þó ekki meiri hætta en svo.

Þegar ég tala um Norðmenn er ég að vísa til þess hvernig þeir fara t.d. með sína olíuauðlind. (Forseti hringir.) Þar eru útboð. Og eins með rafmagnsauðlindina. Það er fyrirmyndin í útboðum sem við eigum að horfa til Norðmanna með. (Forseti hringir.) Norðmenn fara vel með sínar auðlindir ólíkt okkur.