148. löggjafarþing — 19. fundur,  31. jan. 2018.

stjórn fiskveiða.

6. mál
[16:03]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er nú í fyrsta lagi ósammála þingmanni um að Íslendingar fari eitthvað illa með sínar auðlindir. Ég held að Íslendingar fari ekkert illa með sínar auðlindir. Ég er líka ósammála því sem kom fyrir í ræðu þingmannsins að það sé verið að gefa eitthvað. Þeir sem nýta auðlindina eiga ekki fiskinn í sjónum, þeir hafa hins vegar aðgang að honum. Ég vil að þetta komi skýrt fram.

Það hlaut að vera að átt væri við eitthvað annað en fisk þegar kemur að Norðmönnum. Þetta er svolítið villandi í frumvarpinu, það mætti lesa þetta þannig eins og þeir séu að bjóða upp fiskveiðiheimildir sem ég man ekki til þess að þeir geri. Það er allt í lagi að leiðrétta mig sé það þannig.

Það eru nokkur hundruð útgerðir á Íslandi, 600–700, ég man ekki alveg töluna, sem fá úthlutað kvóta. Honum er úthlutað réttilega í hlutfalli. Reynslan af þessari leið hins vegar þar sem ég þekki til, nú getur vel verið að eitthvað hafi gerst síðan þetta fór af stað í Færeyjum, er bara ekki góð. Þar buðu stærstu útgerðirnar í og fengu það sem boðið var út. Það er rétt að litlir aðilar sýndu áhuga á þessu en þeir fengu ekki neitt vegna þess að þeir gátu ekki (Forseti hringir.) boðið það sem stóru karlarnir gátu boðið.