148. löggjafarþing — 19. fundur,  31. jan. 2018.

stjórn fiskveiða.

6. mál
[17:02]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Herra forseti. Það er grundvallaratriði að veiðigjöldin, auðlindagjöldin, eru ekki skattur, heldur gjald fyrir aðgang að auðlindinni. Það gjald þarf að vera sanngjarnt þannig að útgerðarfyrirtækin geti haldið áfram að fjárfesta en líka að þjóðin fái sanngjarna hlutdeild í auðlindinni. Ef við erum hins vegar að tala um það kerfi sem er núna þá get ég tekið undir það að helst á að reyna að sýna fram á hvert gjaldið á að vera eins nálægt í tíma og hægt er. Uppgjör tvö ár aftur í tímann hefur verið gagnrýnt.

Ég segi líka: Ef það er einhver atvinnugrein sem þekkir íslensku krónuna þá er það sjávarútvegurinn. Auðvitað eiga fyrirtækin að gera ráð fyrir því í reikningum sínum að þau þurfi að greiða veiðigjald eftir tvö ár. Mjög mörg útgerðarfyrirtæki hafa tryggt sig af því að þau gera allt upp í evrum, þau eru sum hver bæði með belti og axlabönd. En ekki smærri útgerðirnar, það er það sem veldur manni áhyggjum, það þarf að athuga þeirra hlut sérstaklega.

Það þarf líka huga að því að 80% hagnaðar í sjávarútvegi koma í gegnum uppsjávarfyrirtækin en 20% gjaldanna koma þaðan. Þarna er vitlaust skipt, vitlaust gefið og við þurfum að skoða það sérstaklega.

Það breytir því ekki að ég er andsnúin þeirri leið sem ríkisstjórnin ætlar að fara, þ.e. að reyna að breyta núverandi kerfi á einhvern hátt með það í huga að reyna að lækka veiðigjöldin. Ég hef það eindregið á tilfinningunni að af hálfu ríkisstjórnarinnar sé verið að nota litlu og meðalstóru útgerðarfyrirtækin, sem allir hér inni hafa örugglega samúð með og íslenska þjóðin líka, til að lækka veiðigjöldin almennt. Ég er ekki sammála þeirri nálgun ríkisstjórnarinnar.