148. löggjafarþing — 19. fundur,  31. jan. 2018.

almenn hegningarlög.

37. mál
[17:31]
Horfa

Flm. (Helgi Hrafn Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er ekki alveg 100% viss um að ég skilji spurninguna rétt. En það sem þessu er ætlað að gera er að fólk sem verður fyrir slíku ofbeldi geti leitað réttar síns og fengið þá aðstoð lögreglu sem þörf er á. Réttur einstaklingsins til að ákveða alltaf sjálfur hvernig er háttað með dreifingu svona efnis hlýtur að vera heilagur, svo annað orð sé ekki notað, út frá almennum kynfrelsissjónarmiðum. Þessu frumvarpi er ætlað að setja það algerlega í vald hvers og eins að ráða því.

Nú vitum við að það er ekki alltaf hægt að eltast við allt sem gerist á netinu. Það verður aldrei þannig að við getum tekið út þann skaða sem verður af slíkum brotum, því miður. En það er líka m.a. þess vegna sem brotið er mjög alvarlegt. Hins vegar er oft vitað, ekki alltaf en oft, hver aðilinn er sem framdi brotið. Í 2. mgr. frumvarpsins er líka gert ráð fyrir að aðilar sem gera það kannski ekki með beinum ásetningi heldur af stórkostlegu gáleysi séu líka ábyrgir gagnvart lögum. Það er hugsað sérstaklega þannig vegna þess að grunnhugmyndin er sú að finna út hvar í lögunum ábyrgðin eigi að liggja. Hún á að liggja hjá þeim sem hefur efnið í sínum fórum. Sá aðili á að tryggja að það dreifist ekki, hvort sem er af stórkostlegu gáleysi eða hvað þá af ásetningi. Þegar um er að ræða ásetning og vitað er eða talið að einhver sé grunaður um að hafa framið slíkt brot, þá er þessi hái refsirammi, sex ár, hugsaður til þess að lögreglan hafi öll þau úrræði sem hún þurfi til að beita. Slík brot eru mjög alvarleg. Og mikið rannsóknarúrræði sem lögreglan fær með svona háum refsiramma. Það er beint markmið (Forseti hringir.) með þeim háa refsiramma að gefa lögreglunni færi á að rannsaka þessi mál að öllu því leyti sem þarf.