148. löggjafarþing — 19. fundur,  31. jan. 2018.

búvörulög og búnaðarlög.

64. mál
[18:03]
Horfa

Flm. (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (V):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á búvörulögum frá 1993, og búnaðarlögum frá 1998, og tengist undanþágum frá ákvæðum samkeppnislaga, verðjöfnunargjöldum o.fl.

Það er ekkert launungarmál að á síðasta ári, þegar ég var sjávarútvegs- og ekki síður landbúnaðarráðherra, fór ég í ákveðnar breytingar með það að markmiði að efla landbúnaðinn og styrkja stöðu bænda hvar sem þeir eru, en ekki síður að styrkja aðkomu neytenda og tryggja hagsmuni þeirra þegar kemur að stjórnun og stefnumótun í landbúnaði.

Við verðum að átta okkur á því þegar við ræðum um þessar undanþágur frá samkeppnislögum að það voru gildar ástæður, sem ég ætla ekki að gagnrýna endilega í dag, fyrir því þegar þær voru settar á sínum tíma. Þær hafa stuðlað að meiri samþjöppun, það er orðinn mun betri rekstrargrunnur fyrir mjólkuriðnaðinn og framleiðsluna og margt gott gerst. Eftir stendur hins vegar að ég er eindregið þeirrar skoðunar að samkeppni og viðskiptafrelsi sé eitt af lykilatriðum fyrir íslenskt samfélag, þá skiptir ekki máli hvort það séu bændur, neytendur, fólkið sem vinnur í sjávarútvegi, ferðaþjónustu eða hvar sem það er. Ég er sannfærð um að með því að hafa þetta að leiðarljósi þá getum við byggt upp öflugt samfélag, öflugar atvinnugreinar, aukið gagnsæi en ekki síður skilning á atvinnugreinum og hvað býr að baki hverri ákvörðun.

Ég kem að því á eftir að það verður að segjast eins og er að mér hefur stundum fundist vanta á gagnsæi í ákvörðunum í tilteknum atvinnugreinum, það er ekki bara bundið við landbúnað. Í landbúnaði er m.a. hægt að draga fram að það eru ekki skýrustu reglurnar sem hafa verið settar á borð um hvernig t.d. verðlagsnefnd búvara tekur sína ákvörðun og oft erfitt að nálgast þær upplýsingar, hvað þá þegar maður er hefur þær að átta sig á grundvellinum. En við megum ekki gleyma því að sagan hefur ákveðinn tilgang. Það er auðvelt fyrir okkur sem lifum nú árið 2018 að gagnrýna eitthvað sem var gert fyrir fimm árum, hvað þá fyrir 15, 20, 35 árum.

Tilgangurinn hefur alltaf verið sá á hverjum tíma að efla íslenskan landbúnað. Það er mikilvægt markmið sem við eigum að hafa öll í huga, en ég er líka sannfærð um að því markvissar sem við tengjum saman hagsmuni bænda og neytenda, því öflugri verður íslenskur landbúnaði, því meiri stuðningur verður meðal almennings.

Þá verðum við að byggja upp þannig kerfi að það geri það raunverulega, að bændur geti staðið sjálfir undir sínum rekstri, að kerfið verði þannig að það haldi þeim ekki niðri, hvort sem við erum að tala um sauðfjárbændur, mjólkurbændur eða aðra, heldur miklu frekar veiti þeim svigrúm til þess að velja sinn farveg, fara þær leiðir sem leiða m.a. til nýsköpunar, ýmissa sprota innan landbúnaðarins sem hefur verið mjög áhugavert að fylgjast með á síðustu misserum að sjá hvernig það er allt að þróast. Ég vil líka draga fram að í allri umræðunni um vanda sauðfjárbænda á síðasta ári, þó að það sé ekki til umræðu hér, hefur m.a. komið gott út úr henni hvernig aukin framleiðsla og framsetning á fjölbreyttari afurðum sauðfjárbænda hefur verið sett fram af hálfu Bændasamtakanna og þeirra sem sjá þar um markaðsmálin. Það finnst mér vera til fyrirmyndar. Það er vísbending um að þrátt fyrir ákveðna gagnrýni, þrátt fyrir mikla umræðu, þá taki bændur og forystumenn bænda það alvarlega og haldi áfram í sinni þróun til þess að koma til móts við neytendur. Það er fagnaðarefni og gott að vita. Það er hægt að gera líka enn betur með stuðningi ríkisins og rétt að undirstrika það að sú sem hér stendur og Viðreisn sem hefur ákveðna sýn í landbúnaðarmálum, við viljum eindregið að við höldum áfram að styðja við íslenskan landbúnað, þannig að það sé sagt. Við teljum það mikilvægt, ekki eingöngu út frá menningarlegu hlutverki heldur ekki síður út frá því að við erum með mikilvægar afurðir, afurðir sem byggja á heilnæmi og góðu umhverfi. Við höfum þá vöru sem við eigum ávallt að styðja við og erum stolt af.

Þess vegna þarf að huga að því hvernig við getum ýtt áfram við þessari fjölbreytni. Það á enginn að vera hræddur við það að í landbúnaði ríki samkeppni og almenn samkeppnislög gildi árið 2018 um íslenskan landbúnað. Þó að annað hafi gilt fram að þessu þá ætla ég ekki að gagnrýna það og fara í þær skotgrafir, nú erum við einfaldlega að horfa til framtíðar. Framtíðin er sú að við eigum að byggja undir samkeppni. Við eigum að byggja undir viðskiptafrelsi. Og við eigum að byggja undir það umhverfi sem tekur utan um allar atvinnugreinar, ekki bara að það gildi um tilteknar atvinnugreinar en aðrar ekki.

Ef við höfum trú á að samkeppni og frelsi leysi málin þá eigum við að styðja það. Svo eru aðrir hér í salnum sem hafa haft þá pólitísku lífssýn að hindra samkeppni og hafa ekki trú á henni. Þá er það bara þannig, það er ekkert við því að segja. Í gegnum söguna hafa verið til flokkar sem hafa stutt það bæði í orði og á borði, en svo eru sumir flokkar sem í orði segja að það eigi að ýta undir viðskiptafrelsi og aukið viðskiptafrelsi bæti m.a. hag neytenda, en síðan í borði er lítið gert með það. Ég er með fyrir framan mig landsfundarályktanir Sjálfstæðisflokksins fyrir þremur árum þar sem segir m.a., með leyfi forseta:

„Mikilvægt er að draga enn frekar úr aðgangshindrunum á íslenskum mörkuðum. Landsfundur ályktar að endurskoða beri búvörulögin“ — heyrið þið það? — „frá grunni til að auka hagkvæmni og samkeppnishæfni íslensks landbúnaðar. Aukið viðskiptafrelsi bætir hag neytenda. Landsfundur Sjálfstæðisflokksins leggur áherslu á að samkeppnislög gildi um landbúnað eins og aðrar atvinnugreinar.“

Mér finnst þetta frábær ályktun. Ég held meira að segja að ég hafi greitt atkvæði með henni á sínum tíma, [Hlátur í þingsal.] svei mér þá.

Þetta er það sem ég er að tala um. Eitt er að vera í orði talsmaður mikillar samkeppni, annað er síðan að fylgja því eftir. Þá skiptir máli að við höfum í huga almannahagsmuni umfram sérhagsmuni. Það er algjört lykilatriði. Treystum við okkur í þá leið? Treystum við okkur í þá vegferð?

Ég segi já. Við í Viðreisn treystum okkur í það. Þess vegna er lykilatriði fyrir okkur að tala um það og fylgja því eftir. Þess vegna erum við þingmenn í Viðreisn m.a. að leggja fram þetta frumvarp, ekki síst eftir að við skoðuðum þingmálaskrá núverandi ríkisstjórnar þar sem eitt af fyrstu verkum núverandi landbúnaðarráðherra er m.a. að taka mál sem stuðla að samkeppni á mjólkurmarkaði og í mjólkurframleiðslu og ýta því út af borðinu. Það kemur algjörlega á óvart þegar maður les landsfundarályktanir Sjálfstæðisflokksins. En það eru kannski bara einhverjir tilteknir einstaklingar sem hafa heimild til þess að velja svona bestu konfektmolana út úr þeim landsfundarályktunum og fylgja þeim eftir. Það er önnur saga.

Þetta er alveg skýrt af hálfu ríkisstjórnarinnar, hún ætlar ekkert að gera í því að auka samkeppni á mjólkurmarkaði, hún ætlar þar með ekkert að gera í því að byggja undir frjálsa framleiðendur, smærri framleiðendur, þá sem vilja halda áfram, þeir eru byrjaðir en þurfa enn frekara svigrúm. Ég trúi því að með því umhverfi sem við höfum búið til og við útfærum það inn í það umhverfi sem samkeppnislögin veita þá munum við fá enn sterkari mjólkurframleiðslu og mjólkurgerð. Við munum sjá fram á aukna nýsköpun og sprota.

Ég bendi m.a. á sjávarútveginn þar sem ríkir frelsi, þar sem ríkir algjör samkeppni. Við höfum komið upp gagnsæju kerfi varðandi uppbyggingu á greininni — það er umdeilt eins og við komum reyndar inn á áðan, herra forseti, hvernig við höfum byggt upp sjávarútveginn, en þar eru gagnsæjar reglur. Við sjáum fram á mikla fjölbreytni innan sjávarútvegsins. Sprotafyrirtæki stíga fram. Það er verið að nýta afurðir úr sjávarútvegi sem aldrei fyrr. Það er eitthvað sem ég veit að landbúnaðurinn hefur verið að skoða og er að feta sig inn á. Það er mikið fagnaðarefni og við eigum að styðja hann í því. Talandi um endurskoðun á búvörulögunum og búvörusamningnum, hluti af því sem við eigum að horfa til er að styðja bændur í því að auka markaðsvirði afurðanna. Þeir eiga að fá stuðning við að auka kolefnisjöfnun af því að það eykur ekki bara umhverfisvitund og gerir okkur betri í umhverfismálum heldur leiðir það líka af sér aukna sprota í alls konar viðskiptum og framleiðslu o.s.frv. Og við eigum ekki síst að styðja við unga bændur til þess að halda áfram innan greinarinnar.

Hér mæli ég fyrir breytingu á búvörulögum sem afnemur undanþágur frá ákvæðum samkeppnislaga. Meginmarkmiðið með þessum breytingum í frumvarpinu er fyrst og fremst það að koma á almennum samkeppnislögum á mjólkurmarkaði þannig að almennar samkeppnisreglur gildi um hann, það verði engar undanþágur, það verði engar sérreglur fyrir hagsmunaaðila heldur almennar reglur. Ég hef fulla trú á því að þeir sem nú þegar eru fyrir á fleti geti staðið sig á samkeppnismarkaði.

Þessu frumvarpi er því ætlað að draga úr afskiptum ríkisvaldsins af verðlagningu m.a., framleiðslu og vinnslu mjólkurafurða. Það er ekkert launungarmál að þetta er að grunni til frumvarp sem var unnið í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu þegar ég var þar á síðasta ári, byggt á því. Það er heldur ekki launungarmál að það var sett í umsagnarferli og fékk ákveðna gagnrýni, mjög fyrirsjáanlega gagnrýni af hálfu þeirra sem eru fyrir á markaði og telja sig vera undir regnhlíf eða vernd þeirrar undanþágu sem lögin veita þeim í dag. En síðan eru aðrir sem hvetja til þess að þessi leið verði farin.

Það er einnig að finna tæknilegar lagfæringar í samræmi við búvörusamningana í þessu máli. Við höfum skoðað og höfum hliðsjón af gildandi lögum og reglum í nágrannalöndunum og af því hvaða skuldbindingar við höfum tekið á okkur í gegnum GATT-samkomulagið.

Undanþágur frá samkeppnislögum samkvæmt búvörulögum hafa verið umdeildar. Það liggja fyrir m.a. fjölmörg álit Samkeppniseftirlitsins vegna beitingar og túlkunar á þeim. En með þessu frumvarpi erum við að leggja til að veigamiklar undanþágur frá samkeppnislögum, sem á árinu 2018 eru mjög óeðlilegar, verði afnumdar. Frumvarpið leysir því að mínu mati helstu ágreiningsefni sem uppi hafa verið vegna beitingar og túlkunar á undanþágum frá samkeppnislögum.

Ég held nefnilega að það þjóni ekki neinum atvinnugreinum að vera með sérreglur frá almennum reglum eins og samkeppnislögum. Ég held að við byggjum ekki endilega upp traust með því að ýta undir sérreglur. Allra síst að helstu hagsmunaaðilar komi og slái skjaldborg um sérákvæðið, undanþáguákvæðið. Undanþáguákvæði í dag árið 2018 stríðir að mínu mati gegn almannahagsmunum og setur sérhagsmuni framar.

Lagt er til að heimild til verðfærslu verði afnumin. Það þykir rétt að heildsöluverðlagning mjólkurvara verði jafnframt frjálsari svo verðlagning mjólkurvara taki meira mið af framleiðslukostnaði en nú er. Það er rætt um hlutverk verðlagsnefndar. Ég vil beina því til hv. atvinnuveganefndar að skoða sérstaklega hlutverk verðlagsnefndar. Ég hef fengið fyrirspurnir um af hverju við erum að halda uppi verðlagsnefnd búvara einmitt í dag. Það er umhugsunarefni hvort við eigum að halda nefndinni. Það er líka umhugsunarefni ef við ætlum að halda henni hvort hún eigi að vera skipuð fulltrúum bænda. Þetta eru ábendingar sem ég hef fengið, m.a. er bent á að í peningamálanefnd Seðlabankans sem ákveður vexti til bankanna eru ekki fulltrúar bankanna. Í þeirri athugasemd sem ég fékk er spurt af hverju aðilar fyrir hönd Bændasamtakanna sitji í verðlagsnefnd búvara sem ákveður verð til þeirra sjálfra, eigi þar aðila. Þetta er eitthvað sem ég vil gjarnan að nefndin skoði, hvort þetta fyrirkomulag um verðlagsnefnd búvara sé rétt.

Markmið frumvarpsins er líka að eyða óvissu og setja skýrari ramma um heimildir afurðastöðva og kveða með skýrum hætti á um að ákvæði samkeppnislaga gildi fullum fetum í mjólkuriðnaði, þá án undantekninga.

Eins og ég gat um áðan var frumvarpið á sínum tíma sent til umsagnar. Ég hef skoðað eitt og annað sem kom fram þar. Einhverjar breytingar hafa verið gerðar sem koma til móts við þær athugasemdir sem voru settar fram en megintilganginum, að afnema undanþáguna, er ekki breytt. Það kom m.a. fram að verðtilfærslan hefur verið metin stundum óeðlileg og skaðleg fyrir neytendur og markaðinn í heild sinni og bent á að hún væri ógagnsæ, að hluta til gerræðisleg og stuðlaði að ákveðinni verðmætasóun. Breytingin myndi hafa í för með sér að vörur sem hefðu verið undirverðlagðar hækkuðu í verði en þær sem hefðu verið yfirverðlagðar lækkuðu. Mikilvægt væri að verðlagning tæki mið af framleiðsluvöru en verðtilfærslan brenglaði verðmyndun og raskaði þannig samkeppni. Verðaðlögun í samræmi við framleiðslukostnað og samkeppni myndi leiða til þess að minni keppinautar gætu betur keppt á markaði í þeim mjólkurvörum sem þeir hafi sérhæfingu til.

Við þurfum að auka fjölbreytni, með fullri virðingu fyrir MS, Mjólkursamsölunni, sem hefur staðið sig ágætlega í verðþróun og markaðsþróun. Það þarf að styrkja stöðu lítilla og meðalstórra framleiðenda. Það ægivald sem er af hálfu Mjólkursamsölunnar og hefur verið er óþarfi því að hún á alveg að geta staðið undir því að vinna undir samkeppnislögum og ég veit ekki betur en að hún sé að standa núna í miklum útflutningi til Bandaríkjanna til að mynda þar sem er ágætt samkeppnisumhverfi. Það er ekkert óeðlilegt þegar maður horfir á t.d. Siggi's skyr, Sigurð Kjartan Hilmarsson, sem hefur byggt upp það myndarlega fyrirtæki í Bandaríkjunum. Það hefur verið gert án þess að þar kæmu að fjársterkir aðilar sem hafa byggt sitt á einokunaraðstöðu. Mjólkursamsalan er að fara í útflutning sem byggir m.a. á fjárhagslegum grunni sem kemur úr einokunarumhverfi. Ég tel að það sé ekki rétt.

Það voru gerðar ítarlegar athugasemdir við fyrirhugaða breytingu á 71. gr. laganna þar sem felld er brott undanþága frá ákvæðum samkeppnislaga. Með öðrum orðum er þar lagt til að felld verði brott heimild afurðastöðva í mjólkuriðnaði til að sameinast, hafa með sér verkaskiptingu milli mjólkursamlaga að því er varðar framleiðslu einstakra mjólkurvara og hafa með sér annars konar samstarf til að halda niðri kostnaði við framleiðslu, geymslu og dreifingu mjólkurafurða. Er það óeðlilegt? Við höfum þegar séð mikinn samruna á milli aðila á markaði þar sem þeir hafa náð ákveðinni hagræðingu.

Það er rétt að taka fram að á markaði sem er í rauninni mun harðari og stærri og ekki síður mikilvægur fyrir neytendur þá hefur Samkeppniseftirlitið veitt á grunni 15. gr. samkeppnislaga heimild til undanþágu að ákveðnum skilyrðum uppfylltum eins og við höfum bent á á sviði olíumarkaðar og líka fjarskipta. Það eru því til fordæmi fyrir því að Samkeppniseftirlitið segi: Allt í lagi, við látum almennar reglur gilda, en á ákveðnum sviðum ef þörf þykir og ítarlegar upplýsingar eru veittar þá veitum við undanþágu á grunni 15. gr.

Ég hef orðið þess vör að það gætir ákveðinnar tortryggni af hálfu afurðastöðvanna í garð Samkeppniseftirlitsins. Mér finnst það miður. Ég vil hins vegar benda á að ef einstakir lögaðilar fara að ábendingum Samkeppniseftirlitsins og miðla upplýsingum, verða ekki tregir við að miðla upplýsingum, þá eru umsóknir þeirra teknar til efnislegrar meðferðar. Ég sé ekki betur en Samkeppniseftirlitið veiti undanþágur sem gætu hæglega átt við á einhverju sviði mjólkuriðnaðarins ef svo bæri undir. Við eigum ekki að vera hrædd við það að almennar reglur samkeppnislaga gildi, miklu frekar eigum við að vera hrædd við það að halda áfram að búa til umhverfi sem er í skjóli undanþágu og sérreglu frá samkeppnislögum. Það getur til lengri tíma verið heftandi fyrir þróun í atvinnugreininni. Við eigum frekar að sjá þessa dínamík sem er í íslenskum landbúnaði og ég verð að segja ekki síst í mjólkuriðnaði og að fyrirtækin, þessir aðilar sem eru stærstir eins og Mjólkursamsöluna, fari brattir og af meiri jákvæðni inn í þessar breytingar. Það er ekki gott yfirbragð að fyrirtæki sem er langstærst berjist með kjafti og klóm gegn því að hér gildi almennar reglur en ekki sérreglur. Miklu frekar ættu menn að nálgast þetta jákvætt því að í þessu eru tækifæri, við sjáum það alls staðar í heiminum, alla vega við sem trúum á að viðskiptafrelsi skili sér í betra samfélagi. Ég hef þá trú að sú hugsun skili enn sterkari landbúnað.

Ég vil í rauninni ekki fara betur yfir frumvarpið að því leytinu til að ég sé að tíminn er hægt og sígandi að renna út. Ég vil hvetja atvinnuveganefnd og það fólk sem þar situr til þess að fara gaumgæfilega yfir það. Ég geri mér fyllilega grein fyrir því að það eru örugglega einhver ákvæði sem menn munu benda á og segja: Þetta er ekki eðlilegt, við þurfum að breyta hinu og þessu. En í guðanna bænum reynum þá að koma þessu máli, þessu prinsippi, í gegnum þingið, þ.e. að almenn samkeppnislög gildi um þessa atvinnugrein eins og allar aðrar. Ég held að það sé heilbrigt og ég er sannfærð um að það er heilbrigt fyrir greinina sem slíka. Við getum komið og nefndin getur komið með ýmsar breytingartillögur við málið, hugsanlega eins og ég gat um áðan um breytta verðlagsnefnd búvara, fært hana í nútímalegra horf, gert hana þannig að neytendur og ekki bara embættismenn í ráðuneytinu og örfáir forystumenn Bændasamtakanna skilji verðlagningu á búvörum, heldur þannig að almenningur og allir skilji. Því ég er líka sannfærð um það að þegar ekki bara almenn samkeppnislög gilda um atvinnugreinar heldur líka aukið gagnsæi upplýsinga, þá verður meiri stuðningur og skilningur í samfélaginu við frekari uppbyggingu á atvinnugrein sem nýtur mikilla ríkisstyrkja. Ég vil undirstrika að hún á að gera það. Við styðjum að bændur verði áfram styrktir, en það er ekki sama hvernig það er gert. Þá umræðu verðum við að þora að taka.

Ég er sannfærð um að við getum haldið áfram, ekki bara með þetta mál heldur líka við endurskoðunina á búvörusamningnum ef við fáum einmitt fleiri að borðinu. Það er eitt af því sem ég ræddi hér áðan í tengslum við sjávarútveginn. Ég er sannfærð um það líka að því fleiri sem tengjast og hafa hagsmuni af því að atvinnugreinarnar eflist, neytendur, bændur, verslanir, afurðastöðvar og fleiri, því betra kerfi verði búið til. Þá verðum við líka að þora að bjóða öllum að borðinu sem hafa mismunandi skoðanir. Ég skynjaði það að sumir aðilar máttu bara alls ekki koma að borðinu við endurskoðunina á búvörusamningnum. Ég held að það sé slæmt fyrir greinina að útiloka ákveðna aðila frá því að fara í umræðuna, hvað þá við endurskoðun á búvörusamningnum.

Þess vegna taldi ég strax í upphafi míns ferils sem landbúnaðarráðherra mikilvægt að stokka upp endurskoðunarnefndina þótt ég viti að forveri minn, hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson, hafi líka verið með gild sjónarmið. Ég taldi hins vegar mikilvægara að breikka hana og ég veit að undir forystu Svanfríðar Jónasdóttir hefur verið unnið gríðarlega gott verk. Það er ágætisgangur í vinnunni. Mér skilst að þau samtöl sem hafa átt sér stað og sú vinna sem unnin hefur verið sé til þess fallin að stuðla að frekari sátt um þær breytingar sem hugsanlega kunna að verða á búvörusamningnum. Þar eru stórar ákvarðanir sem liggja fyrir bændum og þeim sem tengjast og eru undir búvörusamningnum 2019, á næsta ári, þá munu þeir greiða atkvæði um það hvort mjólkin verði kvótasett eða ekki. Það eru skiptar skoðanir meðal mjólkurbænda um það.

Þá tel ég mjög mikilvægt að það verði ekki bara mjólkurbændur sem skilji það og ræði þetta sín á milli heldur að við fáum líka nefndarmenn og einkum almenning með í að skilja út á hvað kerfið gengur. Það hjálpar greininni, aukinn skilningur hjálpar framgangi greinarinnar.

Að því sögðu, herra forseti, undirstrika ég lykilatriði frumvarpsins sem er að afnema þessa sérreglu sem tengist mjólkurframleiðslunni. Það skiptir gríðarlega miklu máli, almannahagsmunir framar sérhagsmunum. Ýtum undir viðskiptafrelsi í landinu. Ýtum undir samkeppni. Það er öllum til góða, neytendum, almennum borgunum en ekki síst bændum í landinu. Þeirra staða mun styrkjast með því að þetta frumvarp nái fram að ganga.