148. löggjafarþing — 19. fundur,  31. jan. 2018.

búvörulög og búnaðarlög.

64. mál
[19:35]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Ég horfi á þetta nokkuð einföldum augum og mér finnst stundum gott að spyrja spurningarinnar: Myndum við samþykkja þetta annars staðar? Við veitum t.d. ákveðna undanþágu gagnvart olíudreifingu. Það væri með óyggjandi hætti hægt að færa mjög góð rök fyrir því að miklu meira hagræði væri af því að reka bara eitt bensínsölufyrirtæki í landinu. Við erum með gríðarlega mikinn kostnað bundinn í bensínstöðvum. Margoft hefur verið bent á að það sé jafnvel allt of mikið af þeim og þetta sé allt of mikill kostnaður og hann leggist á neytendur o.s.frv. Myndi hv. þingmaður einhvern tímann samþykkja slíka ráðstöfun, sérstaklega í ljósi sögunnar og samkeppnislagabrota, að við sættum okkur við slíkt umhverfi, að það væri í raun og veru samkeppnisleysi á bensínsölumarkaði? Hv. þingmaður nefndi í ræðu sinni að ef þessi markaður væri aðeins stærri hvað mjólkurafurðirnar varðar gilti annað um hvað væri hægt að gera, til hvers væri hægt að ætlast af þeim markaði. Þá finnst mér ágætt að hafa í huga að olíur og bensín eru tæp 2% í vægi í neysluvísitölu, mjólkurafurðir 2,5%, þannig að mjólkurmarkaðurinn er samkvæmt því stærri en bensín og olíur. Nú veit ég ekki hvort það fæst staðist á öllum sviðum markaðarins en a.m.k. þegar kemur að vægi í vísitölu neysluverðs. Mjólkurvörur eru langfyrirferðamesta varna í mínum ísskáp, enda er ég mikill aðdáandi góðra osta og ferskrar mjólkur. Þetta er ein veigamesta neytendaafurðin, sú sem við kaupum dags daglega sem neytendur, hún vegur mjög þungt í matarkörfunni. Myndi hv. þingmaður sætta sig við sambærilegt samkeppnisumhverfi á sviði bensínsölu og við höfum lagt okkur undir (Forseti hringir.) á sviði mjólkurvara?