148. löggjafarþing — 20. fundur,  1. feb. 2018.

embættisfærslur dómsmálaráðherra.

[10:33]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Herra forseti. Nú hafa engin skrifleg gögn komið á okkar borð sem benda til þess að nokkur sérfræðingur innan eða utan Stjórnarráðsins hafi ráðlagt hæstv. dómsmálaráðherra að fara þá leið sem hún fór við undirbúning sinn við skipun landsréttardómara. Enginn ráðuneytisstarfsmaður, enginn embættismaður, enginn lögfræðingur eða sérfræðingur í stjórnsýslurétti var sammála mati hæstv. dómsmálaráðherra, að það stæðist stjórnsýslulög að handvelja dómaraefni án ítarlegrar rannsóknar og greinargóðs rökstuðnings.

Ef svo var, kviknuðu engar viðvörunarbjöllur hjá hæstv. dómsmálaráðherra? Hvers vegna lét hún okkur ekki vita af því? Ef ekki, ef einhver af þeim sem hæstv. dómsmálaráðherra leitaði ráða hjá var sammála lagatúlkun hennar, hvers vegna var ekkert skráð um það? Ekkert minnisblað, engin tölvupóstar, ekki neitt. Eru þessi vinnubrögð boðleg, herra forseti?