148. löggjafarþing — 20. fundur,  1. feb. 2018.

embættisfærslur dómsmálaráðherra.

[10:36]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Herra forseti. Það lá ekki fyrir fyrir kosningar að ráðherra hefði fengið fjölmargar ráðleggingar um að leið hennar væri ekki fær. Það lá ekki fyrir fyrir kosningar að ráðherra hefði brotið lög samkvæmt Hæstarétti. Það lá ekki fyrir fyrir kosningar að ráðherra hefði skapað hundraða milljóna skaðabótakröfu á skattgreiðendur, en sú skylda kom fyrst fram í dómi Hæstaréttar sem féll eftir kosningar.

Herra forseti. Þetta mál er prófsteinn á endurreisn Íslands eftir hrunið. Erum við enn föst í fyrirhrunshjólförunum þar sem frændhygli og gerræðisleg vinnubrögð ráðherra eru daglegt brauð? Eða erum við komin fram á veginn þar sem slík vinnubrögð líðast ekki og kalla á eðlilegar pólitískar afleiðingar? Er ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur að falla á sínu fyrsta prófi?