148. löggjafarþing — 20. fundur,  1. feb. 2018.

embættisfærslur dómsmálaráðherra.

[10:42]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Mál hæstv. dómsmálaráðherra og hvernig þau hafa þróast kalla sannarlega á ýmsar spurningar, ekki síst um siðareglur og traust. Hæstv. ráðherra breytir niðurstöðu nefndar um skipun dómara í Landsrétt og biður þá hv. þingmenn sem studdu þáverandi ríkisstjórn að staðfesta uppröðun sína. Það gerðu þingmennirnir og treystu ráðherranum sem starfaði í umboði þeirra. Hæstv. ráðherra hafði verið ráðlagt að gera hlutina með öðrum hætti en hún gerði en lét þingmennina, sem hún hafði beðið um að styðja sig, ekki vita um það. Þeir þingmenn eru óánægðir og telja að ráðherrann hafi brugðist trausti sínu, en þá hafa aðrir hv. þingmenn hlaupið í skarðið og vilja að hæstv. ráðherra starfi í sínu umboði, hv. þingmenn Framsóknarflokksins og Vinstri grænna, og virðast vilja varpa ábyrgðinni yfir á þingið en ekki ráðherra. Auðvitað verðum við, herra forseti, að fara yfir þetta í sameiningu, þingmenn og forseti Alþingis.