148. löggjafarþing — 20. fundur,  1. feb. 2018.

embættisfærslur dómsmálaráðherra.

[10:57]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Virðulegi forseti. Mér er bæði ljúft og skylt að svara góðri spurningu hv. þm. Óla Björns Kárasonar. Við vorum búin að koma hæstv. ráðherra í þá stöðu að standa við orð sín, frá því fyrr í þessari umræðu, hér í pontu, um að hún teldi þessi mál heyra undir jafnréttislög; kanna málið, gagnrýna hæfismatið, koma með nýja tillögu sem væri studd rökum og þing væri upplýst um þær röksemdir og gæti tekið upplýsta ákvörðun í kjölfarið. Í stað þess kaus hæstv. ráðherra, í krafti þess og vitandi að þingið bæri jú endanlega ábyrgð með atkvæðagreiðslu sinni hér í sal, að leyna þingmenn, jafnt stjórnarmeðlimi sem stjórnarandstöðuþingmenn, því að það sem hv. þm. Birgir Ármannsson kallar vangaveltur, eða skiptar skoðanir í einstaka tölvupósti, voru ráðleggingar, einróma ráðleggingar, og viðvaranir (Forseti hringir.) hennar nánustu samstarfsmanna og fagfólks úr ráðuneytinu.