148. löggjafarþing — 20. fundur,  1. feb. 2018.

áhrif Brexit á efnahag Íslands.

[11:36]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður vísaði hér í skýrslu sem var lekið úr breska stjórnarráðinu og hefur nú verið gagnrýnt nokkuð. Á það hefur verið bent að allar þær spár sem gerðar voru í tengslum við útgöngu Breta, Brexit, á sínum tíma hafi fram til þessa ekki gengið eftir, þvert á móti. Það er þó aukaatriði, við vonumst til þess að það gangi vel hjá vinum okkar, Bretum, í náinni framtíð. Það er undir þeim fullkomlega komið.

Svo ég vísi til þess þegar ég var að tala um tækifæri Íslendinga þegar kemur að útgöngu Breta úr Evrópusambandinu þá veit hv. þingmaður mætavel að það eru tollar á ákveðnum vörum inn á EES-markaðinn fyrir okkur. Það hljóta þá að vera tækifæri, eins og hv. þingmaður mætavel veit, ef þeir tollar verða lækkaðir eða afnumdir sem ætti auðvitað að gera. Evrópusambandið hefur ekki tekið það í mál fram til þessa. Á sama hátt veit hv. þingmaður að Bretar hafa lagt á það áherslu að þeir ætli að vera alþjóðlegir í viðskiptum, leggja meiri áherslu á aukna fríverslunarsamninga og hv. þingmaður veit að það verða gerðir fleiri fríverslunarsamningar sem þýðir tækifæri fyrir útflutningsþjóðina Ísland sem er fríverslunarþjóð og gott dæmi um það að fríverslun skilar árangri. Við erum skýrt dæmi um það.

Hvað varðar heimavinnu utanríkisráðuneytisins hefur hvorki meira né minna en verið gefin út heil skýrsla um það sem hv. þingmaður hefur undir höndum þar sem nákvæmlega er farið yfir það hvernig vinnan hefur verið. Við höfum lagt mikla áherslu á þetta þar sem Bretland er okkar næstmikilvægasta viðskiptaland. Þar hafa verið gerðar hinar ýmsu sviðsmyndir en sömuleiðis hefur þetta verið greint, ekki bara innan Stjórnarráðsins heldur líka með hagsmunaaðilum vegna þess að það skiptir máli að við fáum þá strax að borðinu og það var gert. Sú skýrsla liggur fyrir og búin að liggja fyrir um nokkurn tíma. En áfram heldur vinnan.