148. löggjafarþing — 20. fundur,  1. feb. 2018.

notkun og ræktun lyfjahamps.

18. mál
[15:55]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Herra forseti. Við ræðum þingsályktunartillögu um notkun og ræktun lyfjahamps sem er lögð fram af hv. þm. Halldóru Mogensen og fleiri hv. þingmönnum Pírata. Eins og hv. þm. Ari Trausti Guðmundsson kom inn á í ræðu sinni áðan er ekki beinlínis fjallað um þörfina í tillögunni né greinargerðinni, af hverju þurfi að gera þetta. Svörin og ástæðurnar eru meira einhvern veginn að þetta séu réttindi fólks og að við eigum ekkert að vera leiðinleg við fólk sem vill fá að nota eitthvað annað en það sem er í boði í dag.

Með þessari umræðu er svolítið verið að ýta undir, ég lít a.m.k. þannig á, þá umræðu að normalísera notkun kannabisefna, gera þetta svolítið löglegt, gera þetta aðeins meira grænmeti, gera þetta svolítið grænt, þetta sé svo náttúrulegt. Allt þetta hafið þið, hv. þingmenn, lesið á netinu alveg eins og ég og heyrt og séð í orðræðu margra sem hafa talað fyrir notkun kannabisefna. Þessi umræða er beinlínis hættuleg vegna þess að skilaboðin sem við sendum út í samfélagið eru þau að hér sé á ferðinni meinlaus lítil planta sem fólk eigi að geta ræktað heima hjá sér og notið ávaxtanna af henni, að hún sé ágætisvalkostur við gagnreynda meðferð við alls konar sjúkdómum. En það er bara rangt, hv. þingmenn.

Þekkingargrunnurinn á bak við notkun kannabisefna í lækningalegum tilgangi er ekki sérlega góður og í langflestum þeim sjúkdómaflokkum sem hv. þingmaður taldi upp áðan að væri hægt að nota plöntuna og efnið er til gagnreynd meðferð með öðrum aðferðum sem felur ekki í sér þá samfélagslegu áhættu sem það er að taka inn aðra plöntu, annað efni, sem er og hefur alltaf verið í grunninn vímugjafi og vímuefni og notað upprunalega sem slíkt. Það er ekki hægt að snúa svo við blaðinu og segja: Ja, nei, svo ætlum við eiginlega bara að leyfa þetta af því að þetta er svo gott meðal.

Það er ekki þannig og ég bendi hv. þingmönnum á ágætispistil sem vill svo skemmtilega til að er í því ágæta dagblaði Fréttablaðinu í dag, 1. febrúar, á síðu 48, eftir Láru G. Sigurðardóttur, lækni og doktor í lýðheilsuvísindum. Þar rekur hún á auðskildu og í ekkert mjög löngu máli þær hættur sem eru undir og þau vandamál sem við getum skapað með því að losa tökin hvað þetta varðar. Ég ætla að leyfa mér að grípa niður í þetta tilskrif Láru og þar kemur m.a. fram, með leyfi hæstv. forseta:

„Við langvarandi neyslu getur kannabis skert greind ungmenna. Þegar heilinn er að taka út þroska myndar hann sífellt ný taugamót og samkvæmt dýrarannsóknum truflar kannabis myndun nýrra taugamóta. Afleiðingarnar geta verið erfiðleikar með einbeitingu og að festa minningar í sessi. Sýnt hefur verið fram á að vitsmunagetan sem tapast kemur ekki aftur þegar kannabisneyslu er hætt.“

Áfram segir svo Lára:

„Kannabis getur valdið öndunarfæravandamálum líkt og tóbaksreykingar og einnig hröðum hjartslætti, sem getur aukið hættu á hjartaáfalli.“

Það er einnig vel þekkt hvernig kannabis getur ýtt undir kvíða og aukið á kvíðaeinkenni sem eru einmitt oft mjög erfið einkenni að eiga við í þeim sjúkdómum sem hv. þingmaður taldi upp. Það er beinlínis rangt að ætla að taka ákvörðun um það, án þess að það sé nokkur knýjandi þörf, að ýta undir tiltekin vandamál sjúklinga til að leysa önnur. Ég veit svo sem ekki nákvæmlega hversu margir kannabisnotendur eru í landinu en þær kannanir sem hafa verið gerðar, til að mynda í grunnskólum og fyrstu bekkjum framhaldsskóla, sýna að neyslan þar er í einnar stöðu prósentutölum í prósentuvís, einhvers staðar á bilinu 2–3% upp í innan við 10%, þ.e. þeir sem hafa einhvern tímann prófað efnið. Engu að síður leita 40% úr þessum aldurshópum á meðferðarstöðina Vog vegna fíknivandamála, einmitt út af kannabis. Hv. þingmenn átta sig væntanlega á því að þessir sömu aldurshópar eru miklu virkari í neyslu áfengis, þar eru sennilega 70–80% í sumum aldurshópunum sem neyta áfengis. Þá sjáið þið hvað brautin er miklu styttri í vandamál með neyslu þessara efna en til að mynda með alkóhól sem við erum þó öll sammála um að sé tiltölulega hættulegur vímugjafi. Við erum sennilega ekki tilbúin að banna áfengi en ég held, hv. þingmenn, að við eigum að fara afar varlega í að lögleiða nýja vímugjafa. Ég er algjörlega sammála þeirri hugsun sem hefur komið fram hjá þingmönnum Pírata að það á ekki að glæpavæða það að menn lendi í þeirri ógæfu að neyta þessara efna. Við eigum ekki að glæpavæða það en það er algjör óþarfi að búa til nýjan farveg fyrir enn eitt vandamál í sambandi við neyslu vímuefna á Íslandi og ég geld mikinn varhuga við þessari tillögu.