148. löggjafarþing — 20. fundur,  1. feb. 2018.

notkun og ræktun lyfjahamps.

18. mál
[16:16]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við erum í raun að tala um tvö mál, annars vegar læknisfræðilega eiginleika lyfjahamps og hvort það geti verið gagnlegt eða ekki og hins vegar vímuefnamál. Það er reyndar alveg eðlilegt út frá tillögunni en hins vegar verðum við að halda því til haga að hér er hugsunin sú að þetta sé notað sem lyf. Höfum það alveg á hreinu.

Ég hef spjallað við ýmsa sérfræðinga sem eru með ýmsar skoðanir á því hvernig hlutirnir eigi að vera. Með fullri virðingu fyrir þeim samt sem áður er frekar algengt þegar kemur að vímuefnamálum, og ég ætla ekki að fara út í læknisfræðina, að þær ráðleggingar sem er farið eftir og virðast augljósar hafi frekar öfug áhrif. Til dæmis stöðvaðist hassinnflutningur hingað meira og minna eftir hrun. Ímyndaðu þér ef ég hefði sagt þér árið 2005: Við getum bara skorið burt allan hassinnflutning til Íslands. Hvað heldurðu að myndi gerast? Nú, flestir myndu segja: Neyslan myndi minnka, það yrði minna af kannabisefnum. Hvað gerðist? Kannabisframleiðsla varð innlend, það breyttist ekki nokkur skapaður hlutur. Íslendingar byrjuðu bara að rækta gras upp á eigin spýtur.

Í Winnipeg var upprætt glæpagengi sem var fíkniefnasalagengi og það varð morðalda. Það varð árangurinn af að framfylgja stefnunni. Auðvitað vill maður uppræta glæpagengin. Ég er ekki að tala gegn því, ég er bara að segja: Afleiðingar gjörða okkar eru ekki svo augljósar og einfaldar í vímuefnaheiminum. Eftir stendur að fólk vill nota vímuefni, hvort sem okkur líkar það betur eða verr.

Annað sem er hætta á að gerist núna er að okkur hafi tekist svo vel að passa að morfínskyldum efnum sé ekki deilt til fólks að fólk sé að fara yfir í heróín sem er miklu hættulegra. Burt séð frá læknisfræðinni þurfa gjörðir okkar í vímuefnamálum að horfast í augu við það að fólk sækist eftir þessum efnum.

Það sem ég er að segja er að þegar kemur að kannabisefnum er sennilega ekki til neitt efni sem er einfaldara að rækta. Ég trúi því ekki að þessi tillaga muni hafa einhverjar neikvæðar afleiðingar í því. Þar er fókusinn. (Forseti hringir.) Þegar kemur að eftirspurnarhliðinni í kannabisefnum fáum við fókusinn fram með forvörnum, með skaðaminnkun og slíkum úrræðum, ekki með því að reyna sífellt að hindra aðgengi, jafnvel þótt það hindri okkur í að nota lyf sem virka fyrir þó suma sjúklinga.