148. löggjafarþing — 20. fundur,  1. feb. 2018.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

23. mál
[16:48]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þegar fólk talar um að ákvæði eins og þetta þrengi að rekstri lífeyrissjóða þá er kannski ágætt að skoða hlutina í víðara samhengi af því að fjárfestingar lífeyrissjóðanna í dag mega ekki þrengja að lífi þeirra sem koma hér í framtíðinni og byggja þetta land. Það að byggja upp samfélag jafnréttis, það að byggja upp grænt hagkerfi, það að byggja upp góðkynjaðan hagvöxt á landinu er eitthvað sem kemur kannski ekki jafn skýrt fram í excel-skjölum lífeyrissjóðanna og margt annað, en það skilar ábata til langs tíma til þeirra sem síðan, eftir 50, 60, 70 ár, fara að innleysa lífeyrissparnaðinn sem þetta samfélag verður að hluta til byggt á. Mér finnst því full ástæða til að tiltaka hvaða siðferðislegu viðmið það eru sem lífeyrissjóðir eiga að fjárfesta samkvæmt, jafnréttissjónarmiðin eru eitt af þeim.

Af því þingmaðurinn nefndi olíusjóðinn norska og þá þróun sem er að verða varðandi stóra sjóði af svipuðu tagi á Norðurlöndum, þ.e. að þeir eru að færa sig í átt að góðkynja fjárfestingum, þá er það umræða sem við þurfum líka að eiga inni þegar og ef við setjum á fót þjóðarsjóð hér á landi í kringum arð af auðlindum. Við þurfum frá fyrsta degi að gæta að því að það sé meginsjónarmið, jafnrétti, umhverfisvernd og góðkynja fjárfestingar.