148. löggjafarþing — 21. fundur,  5. feb. 2018.

mótun fjármálakerfisins og sala Arion banka.

[15:06]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina þó að ég sé alls ekki sammála forsendum hennar um svokallað stefnuleysi ríkisstjórnarinnar í málefnum fjármálakerfisins. Ríkisstjórnin vill ná að skapa hér heilbrigða umræðu um hvernig við viljum þróa íslenskt fjármálakerfi til framtíðar. Þar hafa verið gerðar verulegar breytingar á undanförnum árum í ljósi þess að við erum hluti af hinum evrópska innri markaði. Hér hefur verið innleitt mjög umfangsmikið regluverk á sviði fjármálamarkaðar, sem hv. þingmaður þekkir auðvitað vel, sem hefur gerbreytt stöðunni.

Ástæða þess að ríkisstjórnin vill ráðast í gerð hvítbókar, sem við viljum fá að eiga samtal um á vettvangi þingsins, og kalla til þess sérfræðinga og erlenda ráðgjafa, er að skoða betur íslenska fjármálakerfið, hvort við teljum það regluverk fullnægjandi sem innleitt hefur verið á undanförnum árum. Hvort við viljum taka skref í því til að mynda að aðskilja starfsemi viðskipta- og fjárfestingarbankastarfsemi. Hvort við viljum horfa til einhverra sérstakra aðstæðna þegar kemur að eiginfjárhlutfalli og öðru slíku. Ég hefði haldið að hv. þingmaður ætti að fagna því eins og aðrir hv. þingmenn að við séum að reyna að leggja til grundvallar stefnumótun í málefnum fjármálakerfisins vinnu sérfræðinga sem við fáum svo tækifæri til að ræða hér á þingi. Ég tel það ekki vera sanngjarnar eða réttar forsendur hjá hv. þingmanni að tala um stefnuleysi.

Hv. þingmaður var forsætisráðherra í ríkisstjórn sem sat frá 2013–2016. Þá var ráðist í gerð svokallaðra stöðugleikasamninga. Þá var tekin sú ákvörðun að eignarhald ríkisins í Arion banka yrði með þeim hætti sem nú er, þ.e. í gegnum þennan 13% hlut. Komið hefur fram að aðrar leiðir hafi hugsanlega verið mögulegar, til að mynda að ríkið tæki yfir Arion banka. Það var ekki gert á þeim tíma. Staðan núna er sú að ríkið er eigandi að 13% hlut. Ég ætla að koma nánar að forkaupsréttinum í síðara svari mínu (Forseti hringir.) og því hvort til standi að selja þann hlut. En það liggur fyrir í stjórnarsáttmálanum sem hv. þingmaður vitnaði til að til stendur á kjörtímabilinu að draga úr eignarhaldi ríkisins á íslenskum fjármálafyrirtækjum.