148. löggjafarþing — 21. fundur,  5. feb. 2018.

langtímaorkustefna.

[16:25]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S):

Herra forseti. Mig langar eins og aðrir að byrja á að þakka málshefjanda fyrir umræðuna og fyrir að vekja athygli á þessu gríðarlega mikilvæga máli. Ég tel þetta vera eitt af allra stærstu málum þingsins þessi misserin, að ná niðurstöðu um mál sem snúa að þessu. Það er mjög erfitt að fara í gegnum þennan málaflokk á tveimur mínútum; hér er stórt spurt um marga punkta.

Ég vil fyrst og fremst vekja athygli á meginflutningskerfi raforku í landinu í dag og hvaða stöðu það er í. Á suðvesturhorninu er gríðarlega sterkt og öflugt kerfi, eitt það allra besta í heimi. En annars staðar í landinu er búið við ákaflega veikt og lélegt kerfi sem getur í dag flutt um 3–4% af afkastagetu virkjana landsins. Það hefur verið talað um að til þess að við getum nýtt þessa orku að fullu þyrftum við svona 15–20% flutningsgetu á byggðalínunni, svo að hægt væri að nýta raforku landsins skynsamlega. Orkutapið er með þeim hætti að við töpum milljarði eftir milljarð á hverju ári vegna þess.

Á mínu heimasvæði, í Eyjafirðinum, hefur verið ófremdarástand í tíu ár og er orðið þannig núna að á síðustu 12–18 mánuðum er búið að setja upp dísilrafstöðvar fyrir yfir 100 milljónir til að tryggja raforku á svæðinu. Það er eiginlega ekki, eins og talað hefur verið um, hægt að stinga pylsuvagni í samband. Þannig er staðan orðin. Þetta er algert forgangsverkefni. Ég held reyndar að við ágætir hv. þingmenn ættum kannski að leggjast í svolítinn víking með þetta, að ræða þessi mál miklu frekar hér. Hér eru komin mörg góð málefni til að ræða enn frekar í sérstökum umræðum á þinginu, hér er klárlega á ferð eitt af allra stærstu málum sem varða þingið þessi misserin.