148. löggjafarþing — 21. fundur,  5. feb. 2018.

langtímaorkustefna.

[16:42]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Ég þakka kærlega fyrir gagnlega og málefnalega umræðu um málið og vil aðeins að grípa það sem hv. þm. Ari Trausti Guðmundsson kom inn á í lokin varðandi aðkomu Alþingis að meginflutningskerfinu. Ég mun — ég veit ekki hvort það verður í lok þessarar viku, þeirri næstu eða þarnæstu — mæla fyrir þingsályktunartillögu um uppbyggingu flutningskerfis raforku. Það er þá í fyrsta sinn sem það er gert. Það er einmitt til þess að tryggja aðkomu lýðræðislega kjörinna fulltrúa að því, ég tek undir með hv. þingmönnum með það.

Mér fannst áhugavert að hlusta eftir því hve mikill þungi er á flutningskerfið í þessari umræðu þrátt fyrir að við séum að ræða um orkustefnuna. Ég held að það endurspegli mjög verkefnin þar sem eru bæði stór og aðkallandi. Við erum einfaldlega með svæði þar sem kerfið eins og það er núna hamlar atvinnuuppbyggingu. Það er sérstaklega á Norðurlandi þar sem verkefnin næstu misserin eru Kröflulína, Hólasandslína og Blöndulína. Þegar því er lokið erum við búin að styrkja það svæði mjög. Vestfirðir eru síðan annað dæmi sem þarf að efla. Þetta snýr að flutningskerfinu. Ég held að þetta sýni bara hvað það brennur á þinginu og samfélaginu og sérstaklega á landsbyggðinni.

Varðandi það að vinna svona orkustefnu og að þessir þrír flokkar sitji í ríkisstjórn: Ég held að það blasi við að verkefnið verður stórt og þetta er meiri háttar áskorun. Það að vera með þessa flokka saman — ég ætla ekki að segja að það verði auðvelt að vinna verkefnið en ég er alla vega klár og ég fagna því að það er þverpólitísk samstaða um að fara í verkefnið, vinna yfir höfuð svona stefnu. Það verður síðan áskorun að ná þessum sjónarmiðum saman. Enginn sagði að þetta yrði auðvelt. En ef menn eru sammála um að það þurfi að vinna þetta hljótum við bara að vanda okkur og leiða síðan ákveðinn ágreining í jörð.

Til að nefna það í lokin er það mín skoðun að það eigi að binda í lög (Forseti hringir.) að orkustefna eigi að vera til langs tíma. Það má ekki vera þannig að þegar þessi ríkisstjórn víkur og mynduð verður ný verði það hennar skoðun að enga langtímaorkustefnu þurfi.