148. löggjafarþing — 22. fundur,  6. feb. 2018.

störf þingsins.

[13:49]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Herra forseti. Ég ætla að nota ræðutíma minn undir þessum lið til að ræða kjarnorkuógnina sem heimurinn stendur frammi fyrir. Það er ekki í fyrsta skipti sem ég nota þetta ræðupúlt til þess, en þörfin til að ræða þessi mál verður meira og meira knýjandi.

Frá árinu 1968 hefur verið sáttmáli í gangi um bann við útbreiðslu kjarnorkuvopna, svokallaður NPT-samningur. Hann felur í sér bann við frekari útbreiðslu kjarnorkuvopna og leggur skyldu á herðar þeim þjóðum sem búa yfir slíkum vopnum að vinna að útrýmingu þeirra. Ég er í hópi þeirra sem telja að þessi samningur hafi því miður ekki verið að virka. Þó að vissulega hafi tekist að fækka sprengjunum hafa þær sprengjur sem hafa verið í þróun orðið öflugri.

Nú ber svo við og hægt er að lesa um það í fjölmiðlum að kjarnorkuvopnastefna Trump-stjórnarinnar í Washington er núna að breytast, þar sem talað er fyrir því að þróa það sem kallað er taktísk kjarnorkuvopn sem er hægt að nota í staðbundnum hernaði, sem sagt minni vopn. En þá erum við að tala um vopn af þeirri stærðargráðu sem varpað var á Hírósíma, svo að við setjum hlutina í samhengi. Þetta er auðvitað grafalvarlegt mál og ég mun þess vegna á næstu dögum endurflytja þingmál um það að Ísland gerist aðili að nýlegum samningi á vettvangi Sameinuðu þjóðanna um að kjarnorkuvopn verði einfaldlega bönnuð, því að því miður hafa þeir afvopnunarsamningar sem hafa verið í gildi síðustu áratugi ekki verið að (Forseti hringir.) virka. Þetta er risastórt mál og ég brýni þingheim í því að taka þessi mál til umhugsunar og skoðunar um það hvernig við getum lagt heiminum lið.