148. löggjafarþing — 23. fundur,  7. feb. 2018.

störf þingsins.

[15:32]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Hæstv. utanríkisráðherra átti í byrjun vikunnar fund með aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna í New York. Hæstv. ráðherra sagði af því tilefni að Sameinuðu þjóðirnar væru okkur mikilvægari en margan grunar. Ég tek heils hugar undir það. Ég vil vekja sérstaka athygli á einu sem aðalframkvæmdastjórinn sagði á fundinum. Hann lagði áherslu á að Ísland gæti haft mikil áhrif á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, oft væri litið til Íslands sem sáttasemjara, enda væri Ísland forysturíki á sviði jafnréttis og mannréttinda sem nyti trausts. Þetta eru mjög athyglisverð ummæli í okkar garð og ánægjuleg. Við eigum að líta á þau ummæli sem tækifæri til að gera okkur sýnilegri á alþjóðavettvangi, sýnilegri á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og sýna frumkvæði í alþjóðamálum.

Framkvæmdastjórinn nefndi sérstaklega að Ísland nyti trausts sem sáttasemjari. Traust er afar mikilvægt í sáttar- og friðarumleitunum á alþjóðavettvangi. Það að Ísland sé herlaust land og land án vopnaframleiðslu styrkir stöðu okkar í þeim efnum.

Herra forseti. Ég vil nefna stórt mál á alþjóðavettvangi þar sem ég tel að við gætum látið til okkar taka. Það eru deilur Ísraels og Palestínumanna. Ég segi þetta ekki síst vegna þess að ég hef starfað á því svæði og fundið fyrir mikilli velvild Ísraela og Palestínumanna í okkar garð. Bandaríkjamönnum hefur mistekist að stilla til friðar í Miðausturlöndum vegna þess að Palestínumenn hafa aldrei getað treyst þeim fyllilega. Evrópusambandinu hefur ekkert orðið ágengt vegna þess að Ísraelar hafa ekki treyst því. Noregur hefur hug á að koma aftur að friðarferlinu en ég fullyrði hér að almenningur í Palestínu treystir þeim ekki eftir misheppnaðan Óslóarsamning.

Ísland er lítið land, en stórt land þegar kemur að friðarmálum. Það hefur framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna staðfest.