148. löggjafarþing — 23. fundur,  7. feb. 2018.

samræming verklags um fjarfundi á vegum ráðuneyta.

45. mál
[16:57]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Virðulegur forseti. Þetta er góð tillaga sem hv. þm. Silja Dögg Gunnarsdóttir ber hér fram. Einhverjum kann að finnast hún ekki láta ýkja mikið yfir sér, en hún er mikilvæg og skiptir máli. Sú sviðsmynd er kunnuleg sem hv. þingmaður brá upp í ræðu sinni um vandræði við tengingar og að hafa raunveruleg samskipti. Flestar, leyfi ég mér að segja, opinberar stofnanir, meðalstórar og stærri, hafa yfir hinum svokallaða fjarfundabúnaði að ráða. Um tíma var talsvert mikil stemning fyrir því að hafa samskipti í gegnum fjarfundabúnað en síðan dvínaði hún og okkur þraut örendið, að hafa þessi samskipti, því að dálítið vandasamt var að koma á stöðugu sambandi. Allt virtist fara í sama farið. En slíkur búnaður er til þótt hann sé auðvitað úreltur í dag, því að við erum að horfa nokkuð mörg ár aftur í tímann, sennilega einn og hálfan áratug eða meira.

Ég minnist þess að fyrsti fjarfundanemendahópurinn, af því að hv. þm. Njáll Friðbert Traustason nefndi Háskólann á Akureyri, í námi í hjúkrun var á Ísafirði. Þar nýttu menn sér að hluta til fjarfundabúnað sem gekk með miklum ágætum. Þeir nemendur sem þar stunduðu nám útskrifuðust allir með láði.

Ég held þess vegna að tillaga hv. þingmanns feli meira í sér (Gripið fram í.)og það sé gott að byrja takmarkað. Við þurfum auðvitað að ryðja einhverjum hindrunum úr vegi og erfiðustu hindranirnar eru fjötrar hugarfarsins. Það er ekkert álitamál að í þessu geta sparast miklir peningar.

Eins og hv. þm. Björn Leví Gunnarsson nefndi er kannski það dýrmætasta tíminn. Það að taka sig upp frá vinnustað, vinnuborði og fara á klukkutíma fund fjarri heimabyggð til þess að aka síðan eða fljúga heim aftur er ekki góð nýting á fjármunum. Alveg sama á við núna þegar stefnt er að því að fækka opinberum stofnunum og stækka þær, dreifa þeim, þá er þetta eitthvað sem við eigum að hugsa miklu meira um.

Ég vil nefna að komin er reynsla á samskipti í gegnum þennan rafræna búnað með margvíslegum hætti. Við sendum mikilvæg gögn og viðkvæm á öruggan hátt á milli landshluta og milli landa, bæði gögn um heilbrigðisþjónustu og önnur gögn. Ég vil benda á að við þurfum að efla þann þátt t.d. í heilbrigðisþjónustu sem oft hefur verið kallaður fjarheilbrigðisþjónusta. Það er tilraunaverkefni í gangi á Klaustri sem dæmi. Þar eru gögn, myndir og samtöl sem fara á öruggan hátt á milli þar sem þau eru rugluð á báðum endum. Við eigum þarna mikil sóknarfæri. Ég vil undirstrika að þessi hógværa tillaga felur miklu meira í sér.