148. löggjafarþing — 24. fundur,  8. feb. 2018.

efnahagsmál og íslenska krónan.

[10:33]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Herra forseti. Nú liggur fyrir að atvinnurekendur telja að ekki sé hægt að hækka laun, hefðbundin orðræða í upphafi kjarasamninga og ekki ástæða til að leggja mikið upp úr henni. Hins vegar eru það sveiflur krónunnar sem leika mörg fyrirtæki grátt. Prósentubreyting á gjaldmiðlinum getur haft mun meira að segja en prósentubreyting í launum. Launakostnaður Odda, sem sagði upp tæplega 90 manns um daginn, nam um 38% af tekjum en verð á innfluttum samkeppnisvörum taka 100% mið af gengi krónunnar.

Mögulega er það svo að stjórnendur iðnfyrirtækja hafa meira upp úr því að verja tíma sínum í gjaldmiðlamál en gæðamál og markaðsmál og hlýtur það að teljast áhyggjuefni. Að mínu mati er óskiljanlegt hvað atvinnurekendur eru lélegir í því að berjast fyrir stöðugum gjaldmiðli. Það liggur fyrir að ekki er hægt að búa við stöðu á krónu þar sem hún er allt of lítill gjaldmiðill í ólgusjó alþjóðaviðskipta.

Gengisfellingar krónunnar eru aðeins leið til að færa fé frá almenningi til sumra fyrirtækja og skila engu nema hærri verðbólgu og lakari kjörum fyrir launafólk. Þess vegna hef ég oft furðað mig á málflutningi hæstv. fjármálaráðherra þar sem þessi skelfilegi gjaldmiðill sem krónan er er varinn og gengisfellingar eru jafnvel taldar til kosta hennar.

Herra forseti. Finnst hæstv. fjármálaráðherra réttlætanlegt að íslenskur almenningur og þorri íslenskra fyrirtækja þurfi að búa við krónuna og fylgifiska hennar sem eru háir vextir og verðtrygging? Á meðan geta stórfyrirtæki og auðmenn kosið skjól annarra gjaldmiðla á sama tíma og þeir njóta góðs af háum vöxtum og verðtryggðu fjármagni. Telur fjármálaráðherra að nú séu aðstæður til að hefja á ný umræðu um framtíðartilhögun gjaldmiðilsmála með hugsanlegri upptöku stöðugri gjaldmiðils á borðinu í ljósi þess að núverandi stefna gengur ekki upp?