148. löggjafarþing — 24. fundur,  8. feb. 2018.

efnahagsmál og íslenska krónan.

[10:38]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Herra forseti. Ég verð að leiðrétta hæstv. ráðherra, ég sagði að atvinnurekendur teldu að ekki væri svigrúm til að hækka laun. Ég var að vekja athygli á hinni krampakenndu sveiflu krónunnar sem hefur verri áhrif á fyrirtækin en launahækkanir. Eitt árið er krónan of veik, hitt árið er krónan of sterk. Hvað þarf til að hæstv. fjármálaráðherra sjái að kostnaður vegna krónunnar er að sliga íslensk heimili og fyrirtæki? Af hverju vill fjármálaráðherra koma í veg fyrir að íslenskur almenningur geti notið góðs af stöðugum gjaldmiðli, lægri vöxtum og engri verðtryggingu? Á sama tíma sér hann ekkert athugavert við það að stórfyrirtæki og auðmenn geri upp sín mál í evrum.

Herra forseti. Krónan er fyrir auðmenn en ekki almenning. Það er eins og maður sé að vega að lóunni þegar maður efast um gildi krónunnar. Svör hæstv. fjármálaráðherra sýna svart á hvítu hvaða hagsmunum ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur berst fyrir, það eru hagsmunir stórfyrirtækja og banka og auðmanna en ekki almennings og venjulegra fyrirtækja í landinu. Það er mikilvægt að það liggi fyrir þjóðinni hvað þetta varðar.