148. löggjafarþing — 24. fundur,  8. feb. 2018.

efnahagsmál og íslenska krónan.

[10:39]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég held að hv. þingmaður vaði einfaldlega í þeirri villu að lífsgæði verði mæld í stöðugleika gjaldmiðils. Við höfum marga aðra mælikvarða til þess að mæla lífsgæði og árangur, t.d. í efnahagsmálum. Þegar við skoðum alþjóðlega mælikvarða um það hvernig okkur gengur að tryggja góð lífskjör á Íslandi þá skipum við okkur fremst meðal þjóða. Þannig er það. Það er ekki þrátt fyrir krónuna, það er m.a. vegna þess að við höfum okkar eigin gjaldmiðil.

Ég er hins vegar enginn trúarofstækismaður í þessum efnum. Sannarlega er það svo að sum lönd hafa valið að deila mynt með öðrum á stóru myntsvæði. Það er þeirra val en við höfum séð afleiðingar þess á undanförnum árum. Þá taka menn efnahagssveifluna út í gegnum atvinnuleysi. Það gerðum við ekki hér á Íslandi þannig að það er alrangt sem hv. þingmaður segir, að verið sé að níðast á íslenskum almenningi og hinum venjulega íslenska borgara með því að við höldum úti okkar eigin gjaldmiðli. Þvert á móti hefur okkur tekist að koma fólki í skjól, tryggja því atvinnu og (Forseti hringir.) við höfum síðan á grundvelli okkar eigin gjaldmiðils byggt upp framúrskarandi lífskjör.