148. löggjafarþing — 24. fundur,  8. feb. 2018.

skýrsla hagdeildar Íbúðalánasjóðs um þörf fyrir íbúðir á Íslandi.

[11:31]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Virðulegi forseti. Ég tek undir þakkir til málshefjanda og hæstv. ráðherra fyrir þeirra þátt í umræðunni í dag. Jafnframt er ég sammála því að þessi nýja skýrsla hagdeildar Íbúðalánasjóðs sé mikilvæg. Staðreyndin er hins vegar sú að hún gerir ekki annað en að staðfesta það sem við vissum fyrir, að við erum komin í fullkomnar ógöngur með þetta mál.

Eins mikilvæg og umræða í þingsal er um málið er það önnur staðreynd að við hér byggjum ekki neitt. Ég er ekki minni talsmanneskja stefnumótunar og heildarsýnar en aðrir, jafnvel meiri. En ég er jafnframt þeirrar skoðunar að stefnumótun sem leiðir ekki neitt sé einskis virði. Við erum komin á þann stað núna að við þurfum að fara að gera eitthvað. Það sem ég er að reyna að velta fyrir mér og skilja og myndi vilja nýta minn stutta tíma í ræðustól til er að átta mig betur á hvað það er raunverulega sem stjórnvöld ætla sér að gera núna. Þá er ég ekki síst að tala í ljósi þess að síðasta ríkisstjórn setti á sínum stutta tíma fram sérstakan húsnæðissáttmála í samvinnu við öll sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu, vissulega, í samvinnu fjögurra ráðuneyta með 14 skilgreindum markmiðum.

Það eru markmið sem ekki ber mikið á í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar og svo sem ekkert út á það að setja þannig séð. Í desember sl. var svipuð umræða. Þar var hæstv. ráðherra spurður um hvað ríkisstjórnin myndi gera, hvernig hún hygðist beita sér við lausn húsnæðisvandans. Mér finnst kominn tími til að spyrja núna: Hvað er verið að gera? Við höfum einfaldlega ekki lengri tíma. Ég myndi vilja hafa spurninguna þannig.

Það sem ég ætla að byrja á núna áður en mér verður sparkað úr ræðustól er að taka undir það sem hæstv. ráðherra nefndi áðan og tengist þessari mikilvægu endurskoðun á regluverkinu öllu sem er íþyngjandi og er eitt af því sem þarf að skoða, það er sá punktur að þetta er ekki eingöngu undir ráðuneyti hæstv. ráðherra komið. Spurningin er kannski sú: Er hæstv. ríkisstjórn með eitthvað slíkt í gangi, að skoða samvinnu eða tilfærslu verkefna þannig að sá ráðherra sem ábyrgð ber á húsnæðismálunum (Forseti hringir.) geti stýrt þessum málum, einfaldað þetta íþyngjandi regluverk og þar með lagt hönd á plóg (Forseti hringir.) til að flýta og einfalda og draga úr kostnaði við byggingarframkvæmdir?