148. löggjafarþing — 24. fundur,  8. feb. 2018.

skýrsla hagdeildar Íbúðalánasjóðs um þörf fyrir íbúðir á Íslandi.

[11:36]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka málshefjanda þessa mikilvægu umræðu. Mikilvægu, segi ég, þar sem húsnæði er á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og víðar skilgreint sem ein af grunnþörfum mannsins. Grunnþarfir mannsins teljast þrjár. Til að uppfylla þær þarf hver manneskja að hafa fæði, klæði og húsnæði og öllum samfélögum ber skylda til að uppfylla þessar grunnþarfir.

Þar sem við Framsóknarmenn gerum okkur vel grein fyrir þessu var farið í afar umfangsmiklar aðgerðir í húsnæðismálum á kjörtímabilinu 2013–2016. Samþykkt voru frumvörp um stóraukna uppbyggingu leiguhúsnæðis, þá mestu í nokkra áratugi. Auk þess var löggjöf í kringum húsnæðissamvinnufélög styrkt, unnið að bótum á leigulögum og komið fram með aðgerðir vegna fyrstu kaupa.

Mikilvægt er að allir einstaklingar hafi val um búsetuform. En þrátt fyrir þessar góðu aðgerðir gerum við okkur grein fyrir að halda þarf áfram og gefa enn betur í. Í því samhengi er samvinna ríkis og sveitarfélaga mikilvæg.

Ég fagna orðum hæstv. ráðherra um að stofnframlög ríkis verði aukin og enn betur byggt undir kerfið sem við Framsóknarmenn komum á. Jafnframt þessu tek ég undir orð hæstv. ráðherra um að mikilvægt sé að lækka byggingarkostnað og koma fram með aðgerðir til að ýta undir nýbyggingar á húsnæði á landsbyggðinni. Ástandið á landsbyggðinni er því miður jafnvel enn alvarlegra en á höfuðborgarsvæðinu. Staðan í sumum sveitarfélögum er í raun sú að þar hefur ekkert verið byggt árum ef ekki áratugum saman.

Ég fagna því orðum hæstv. ráðherra um að verið sé að skoða ýmsar leiðir eins og fyrir fyrstu kaupendur og það verður áhugavert að sjá hvað kemur út úr þeirri vinnu. Eitt er víst að ganga þarf rösklega til verka og hvet ég hæstv. ráðherra til dáða í þessum efnum sem öðrum.