148. löggjafarþing — 24. fundur,  8. feb. 2018.

stefna stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku.

179. mál
[14:59]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég skal bara taka undir hvert einasta orð sem hv. þingmaður lætur hér falla. Sannarlega er ég ekki einn í þessu starfi. Þetta er starfshópur sem hæstv. iðnaðarráðherra skipaði og í situr m.a. hv. þm. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir ásamt fulltrúum Sambands íslenskra sveitarfélaga og frá byggðamálaráðuneyti og Orkustofnun. Þetta er verkefnið sem við erum að fást við ef við viljum bæta flutningskerfið. Þá segir tekjumarkaða leiðin að við þurfum að velta því út í flutningskostnaðinn og þar með hækkar gjaldskráin. Þá þurfum við að rýna tekjumarkaða módelið. Hverju getum við breytt í því svo við förum ekki með framfarirnar af fullum þunga út í gjaldið? Ég hef þá mynd af þessu að við höfum meira lagt áherslu á hvað kerfið þarf en hvað neytendurnir þola. Það eru þau vatnaskil sem ég óska eftir að menn fari að átta sig á í þessum efnum.

Einn lítill hluti sem ég vil nefna við hv. þingmann er að í því tekjumarkamódeli sem við keyrum flutningskostnað eftir hjá okkur í dag höfum við sleppt því, af því að hann nefndi afhendingaröryggi raforku, að verðleggja afhendingaröryggið sem þó er í tekjumarkamódelum hjá öðrum ríkjum. Ég styð alveg punktinn um aukið afhendingaröryggi rafmagns og ég veit að hv. þingmaður gerir það líka. Við höfum náð miklum framförum í þeim efnum og þekkjum stórar og myndarlegar framkvæmdir t.d. í fyrrverandi kjördæmi hv. þingmanns á Vestfjörðum. En betur má ef duga skal. Í tekjumarkamódelum annarra ríkja eins og ég hef lært þetta er t.d. metinn kostnaður af straumleysismínútum sem við gerum ekki hér. Það væri þá hvati fyrir veitufyrirtækin að efla og bæta afhendingaröryggi rafmagnsins.