148. löggjafarþing — 24. fundur,  8. feb. 2018.

stefna stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku.

179. mál
[16:21]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka svör og spurningar. Það er til svolítið sem heitir menningarlandslag. Við erum búin að vera hér í þúsund ár og búa til menningarlandslag sem felst í gömlum torfbæjum og í vatnsvirkjunum og jarðhitavirkjunum. Þetta er eitt af því sem fylgir því þegar menn eru að búa til jafnvægi á milli náttúru, nytja og náttúruverndar. Ég held einfaldlega að enn og aftur sé það samfélagssáttin um hvar þetta megi vera og hvar ekki sem skiptir máli ásamt því að við höldum okkur eins nærri sjálfbærninni og hægt er.

Varðandi vindmyllugarða deili ég áhyggjum hv. þingmanns af þeim, eða af vindmyllum yfir höfuð, vegna þess að ég veit að þær ganga mjög vel á Íslandi. Það er búið að búa til kort um hvaða staðir á Íslandi geta notast fyrir vindmyllur. Ég vil í sjálfu sér ekki afskrifa þær endanlega, alls ekki, og þess vegna hef ég beðið þingmenn í nokkrum flokkum, stjórnarflokkunum í það minnsta, að standa með mér að skýrslugerð um vindmyllur, alla þætti vindmylla, meira að segja vistspor vindmylla frá vöggu til grafar sem við köllum lífsferilsgreiningar. Það hefur komið mikil gagnrýni fram á vindmyllur þannig séð, fyrir utan sjónmengun eða annað. Engu að síður held ég að ef við getum sammælst um að við byggjum iðnaðarsvæði með stórum mannvirkjum, háum mannvirkjum sé ekki útilokað að þar séu vindmyllugarðar á einhverjum afviknum stöðum á Íslandi þar sem það gengur upp. En við þurfum að fara mjög varlega í þeim efnum.

Nú vona ég að skýrslugerðin gangi inn í orkustefnuna, gangi inn í þessa þingsályktunartillögu á vissan hátt varðandi flutningskerfið og að við finnum einhverja farsæla lausn á. En ég vil ekki útiloka neitt.