148. löggjafarþing — 24. fundur,  8. feb. 2018.

stefna stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku.

179. mál
[16:41]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég er sammála hv. þingmanni um að það er mjög mikilvægt að ná sem bestri tengingu um allt land og hringtengingin sem þingmaðurinn nefndi er gríðarlega mikilvæg.

Mig langar hins vegar að spyrja hv. þingmann hvort ég hafi heyrt rétt að áhersla hennar væri á að þessar línur færu sem mest í jörð. Þá velti ég fyrir mér hvort þingmaðurinn hugsi sér að við eigum að bíða eftir því að hægt sé að leggja hringtenginguna í jörð eða að tengja betur Suðurlandið við Austurlandið með jarðstrengjum. Hvað þýðir það þá fyrir notendur á hinum endanum, notendur í austrinu?

Aukinn kostnaður er fyrirsjáanlegur, alla vega í dag, og líka miðað við það sem fram kemur í þessari þingsályktunartillögu. Hefur þingmaðurinn t.d. einhverjar áhyggjur af því að þær fiskimjölsverksmiðjur sem kjósa í dag að keyra á olíu í stað rafmagns vegna kostnaðar, muni gera það áfram vegna þess að raforkuverð muni hækka?