148. löggjafarþing — 24. fundur,  8. feb. 2018.

stefna stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku.

179. mál
[16:43]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka þingmanninum fyrir mjög greinargott og skýrt svar. Það er einmitt mikilvægt að þessi rödd heyrist, við megum ekki staldra við, ekki stoppa núna, og bíða eftir að einhver ný tækni komi eða eitthvað skáni. Við þurfum að halda áfram að styrkja dreifikerfið með þeirri tækni sem við ráðum yfir í dag. Ef það er loftlína förum við í loftlínu. Við bíðum ekki eftir því að hægt sé að reikna sig niður á jarðstreng á einhverju svæði þannig að hann teljist hentugur eða bara bíða þar til þróunin verður betri. Við þurfum að fara í að bæta raforkukerfið strax.

Það kann að vera að kerfisáætlun sem er í gildi núna muni geta uppfyllt einhverjar væntingar í þessa átt. En ég hef svolitlar áhyggjur af að sú tillaga sem er til umfjöllunar hér muni gera það að verkum að taka þurfi upp kerfisáætlunina í ljósi þeirra væntinga eða tilskipana sem koma nánast fram þarna. En það er mjög mikilvægt að við séum sammála um að við verðum að fara af stað strax í að styrkja dreifikerfið, hvort sem það er fyrir austan, norðan eða einhvers staðar annars staðar, og er ég algerlega tilbúinn til að koma með hv. þingmanni í þann leiðangur að berjast fyrir því. En mér finnst að við getum ekki á sama tíma ruggað bátnum með því að bíða eftir nýrri tækni, eins og mér finnst vera lögð áhersla á í þessari þingsályktunartillögu.