148. löggjafarþing — 24. fundur,  8. feb. 2018.

stefna stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku.

179. mál
[16:47]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Virðulegi forseti. Þetta hefur verið mjög áhugaverð umræða í dag og ljóst að sitt sýnist hverjum um áherslurnar í þingsályktunartillögunni. Við fjöllum núna um stefnu stjórnvalda og síðan er það kerfisáætlunin sem tímasetur og segir hvenær við ætlum að gera hlutina og hvernig. Ég ætla að byrja á að velta þeirri spurningu upp — og geri ráð fyrir að ráðherra komi í lokin og svari einhverjum þeirra spurninga sem hafa komið fram í umræðunni ef aðstoðarmenn taka niður þær vangaveltur — hvort þessi þingsályktunartillaga muni hafa einhver áhrif á kerfisáætlun. Mun sá tónn sem hér kemur fram, þ.e. að leggja aukna áherslu á rafstrengi, kalla á að sú kerfisáætlun sem nú er í gildi verði yfirfarin, mun hún hraða því að ný verði gerð o.s.frv.?

Það svarar um leið þeirri spurningu minni hvort þetta tefji þær framkvæmdir sem augljóslega þarf að fara í og þurfti að fara í í gær, það er einfaldlega þannig. Ég hef áhyggjur af því að þetta plagg geti tafið þær, nema það hafi engin áhrif á aðrar áætlanir sem eru uppi.

Mér finnst að sumu leyti ákveðnar mótsagnir í tillögunni. Annars vegar er talað um að styrkja þurfi línurnar með öruggum og hagkvæmum hætti, tryggja þurfi að allir hafi rafmagn o.s.frv. en á sama tíma er í öllu plagginu mikið talað um jarðstrengi, sem eru í dag og það er ekkert útlit fyrir, svo ég viti, að þeir verði jafn ódýrir og hagkvæmir og loftlínur. En það er gegnumgangandi að jarðstrengir eru þarna úti um allt. Þá veltir maður fyrir sér hvort hægt sé að tala um að leita eigi leiða við að hafa rafmagnið ódýrt og stöðugt og hraða því að ná fram öryggi ef það er hin nýja tækni sem á að bíða eftir.

Mig langar svolítið að spyrja hæstv. ráðherra út í að svipað og ég kom inn á í andsvari við hv. þm. Líneik Önnu Sævarsdóttur. Víða um land, t.d. fyrir austan, eru fiskimjölsverksmiðjur að keyra á olíu. Rafmagnið er dýrara. Það er óhagkvæmt að keyra á rafmagni. Ef við ætlum að fara að leggja lagnir eða línur í jörð, sem eru dýrari, þær tvöfalda kostnað eða eitthvað slíkt, ætlum við þá að segja þeim að keyra áfram á olíunni? Eða ætlum við að niðurgreiða það? Hvernig eigum við að snúa okkur í því? Það er mjög mikilvægt að þeir aðilar sem eru á hinum endanum viti hvað er í vændum.

Ég geri mér grein fyrir að hæstv. ráðherra mun ekki geta svarað öllum spurningum mínum en ég velti fyrir mér hvort einhver hætta sé á að tafir verði á þeim áætlunum sem eru í gildi varðandi það að fara í að styrkja raforkukerfið, þ.e. kerfisáætlun. Þetta er kannski endurtekning frá því áðan.

Virðulegi forseti. Það er rætt um línulagnir yfir hálendið í lið 4. Hv. þm. Ari Trausti Guðmundsson tók að sér að skýra það áðan. Mig langar frekar að heyra það frá hæstv. ráðherra hvort þegar talað er um hálendið sé bara átt við miðhálendið. Það stendur hér að ekki verði ráðist í línulagnir yfir hálendið. Er ekki örugglega aðeins átt við loftlínur eða líka jarðstrengi? Ég vil þó taka fram að þar sem eru náttúruundur eða svæði sem við erum öll sammála um að séu verðmæt hljótum við að fara dýrari leiðina.

Ef ég man rétt sá ég einhvers staðar kynningu á því að ef farið er yfir Sprengisand í dag væru það sirka 50 km sem hægt væri að leggja í jörð þar. Þá veltir maður fyrir sér: Ef það má ekki fara yfir Sprengisand, ef hann er hluti af hálendinu, ég veit ekki skilgreininguna, ætlum við þá að krækja fyrir með loftlínum eða jarðstreng? Það eru slíkir hlutir sem mér finnst vanta inn í þetta.

Á bls. 2 í 11. punkti er talað um að tryggja eins og kostur er hagkvæmt flutnings- og dreifiverð. Mig langar að vera kvikindi og spyrja ráðherrann hvenær megi fórna hagkvæmu flutnings- og dreifiverði. Hvenær er sú staða komin að við segjum: Heyrðu, já, höfum þetta rándýrt því við þurfum að hlífa þessu? Það kann að vera á stað þar sem verðmætið er slíkt að við erum öll sammála um það. En það getur varla verið um mörg hundruð kílómetra eða mörg þúsund ferkílómetra svæði að ræða sem er flokkað þannig að það réttlæti mikinn aukinn kostnað, í það minnsta sé ég það ekki í mínum huga geta verið þannig.

Síðan ætla ég að minna á að sveitarfélög og fyrirtæki úti á landi kalla hástöfum eftir því að orkuöryggi þeirra sé tryggt. Þetta plagg má ekki seinka því. Það er líka talað um hér að horfa eigi til efnahagslegra, samfélagslegra og umhverfislegra áhrifa við uppbyggingu flutningskerfisins. Ég ætla að leyfa mér að segja að ég vona svo sannarlega að þarna verði samfélagsleg áhrif höfð að leiðarljósi, að minnsta kosti á stað númer 2 í röðinni, því að mér algerlega ofbýður hvernig nánast er horft fram hjá því t.d. í vinnu við rammaáætlun. Þar eru samfélagslegu áhrifin nánast sett út í horn.

Ég ætla að halda áfram í gegnum þetta plagg. Það er alveg rétt að tækniframfarir hafa orðið í rafstrengjum og öðru slíku. En eru þær slíkar að óhætt sé að einblína á þær eins og virðist gert hér?

Mig langar líka að spyrja hæstv. ráðherra einnar spurningar. Í B-lið tillögunnar er talað um rannsóknir og greiningar, mikill texti um aðila, óháða o.s.frv. Er þetta ekki hlutverk Orkustofnunar í dag? Eða er það misskilningur í mér að Orkustofnun fari með rannsóknarhlutverk þegar kemur að orkumálum, sem fjallað er um í B-lið tillögunnar, Rannsóknir og greiningar?

Svo er það kostnaðurinn, sem ég hef verið dálítið upptekinn af í dag. Það segir í tillögunni að jarðstrengir megi vera allt að tvisvar sinnum dýrari en loftlínur. Ef við skyldum verða sammála um það, sem ég er ekki að fullyrða, hljótum við að þurfa að svara því hver eigi að borga þann mismun. Sér hæstv. ráðherra fyrir sér að neytendurnir muni borga mismuninn eða er einhver önnur leið til þess?

Í lokin á hinu ágæta plaggi segir að ekki sé hægt að leggja nákvæmt mat á kostnað vegna tilfærslna frá loftlínu yfir í jarðstrengi. Auðvitað er það ekki hægt. Við vitum í raun ekki mikið um jarðstrengina, þ.e. hvað þeir kosta þarna versus á hinum staðnum. En ef við erum að fara með áhersluna áþreifanlega yfir í jarðstrengi hljótum við samt að þurfa að svara þeirri spurningu, þótt það væri ekki nema ónákvæmt, hver áætlaður, mögulegur heildarkostnaður sé miðað við einhverjar forsendur með einhverjum vikmörkum. Ég sakna þess að sjá það ekki í plagginu. En það getur líka vel verið að það líti dagsins ljós síðar á öðrum stað.

Virðulegur forseti. Ég er strax búinn með ræðutímann. Ég ætlaði ekki að vera nema hluta af honum en svona er þetta. Það er mjög mikilvægt að atvinnuveganefnd fari vel yfir þessa þingsályktunartillögu og að ráðherra verði opinn fyrir því að skoða það sem skoða þarf í henni. Það er mörgum spurningum ósvarað að mínu mati, sér í lagi varðandi yfirfærsluna eða hugmyndina um að stórauka jarðstrengi. Ég hef líka áhyggjur af því að þó svo að menn haldi sig við loftlínur en fari ekki yfir hið skilgreinda hálendi muni það kalla á stóraukinn kostnað fyrir notendur eða þá einhvern annan.