148. löggjafarþing — 24. fundur,  8. feb. 2018.

stefna stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku.

179. mál
[16:56]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna og umræðuna í dag. Ég er sammála hv. þingmanni um að þetta er búin að vera áhugaverð umræða. Margt athyglisvert hefur komið fram hjá mörgum, líka hjá hv. þingmanni í andsvörum, m.a. við mig og fleiri. Mig langar aðeins að halda áfram með umræðu um aukinn kostnað við jarðstrengi, sem hv. þingmaður kom inn á í ræðu sinni og í andsvörum við mig áðan.

Mér finnst þetta mjög áhugaverð spurning sem við eigum að taka afstöðu til varðandi aukinn kostnað og hver eigi þá að standa undir honum. Ég veit að hv. þingmaður er þingreyndur, en ég sé ekki betur en að sá kafli í tillögunni hér sé algerlega samhljóða kaflanum í þingsályktun stjórnvalda um lagningu raflína sem samþykkt var í maí 2015 og hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson greiddi atkvæði sitt þá. Hver var umræðan þá? Hv. þingmaður var þá í stjórnarmeirihluta. Mig langar að spyrja hv. þingmann um það. Var einhver umræða þá? Stjórnarmeirihluti og hv. þingmaður sögðu já við þeirri tillögu þá. Var einhver umræða um hvernig aukinn kostnaður við lagningu jarðstrengja yrði mögulega greiddur, hver ætti í raun og veru að greiða hann? Því að þeir eru í raun algerlega samhljóða, þessir kaflar. Við þurfum ekki alltaf að finna upp hjólið. Þegar hv. þingmaður greiddi tillögunni atkvæði sitt árið 2015, var hann þá búinn að hugsa eitthvað út í þetta? Var þetta eitthvað rætt og jafnvel unnið frekar með það?