148. löggjafarþing — 24. fundur,  8. feb. 2018.

endurskoðun XXV. kafla almennra hegningarlaga.

113. mál
[18:37]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir að leggja fram þetta mál, sem er áhugavert. Í fljótu bragði hlýtur maður að styðja það. 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu fjallar um tjáningarfrelsi, sem er eitt af því mikilvægasta að mínu mati. Mig langar að nefna örlitla fyrirvara sem ég hef sem snúa reyndar ekki að efni frumvarpsins heldur frekar aðstæðum málaflokksins, tjáningarfrelsi á Íslandi.

Árið 2010 var samþykkt þingsályktunartillaga sem er kennd við IMMI, International Modern Media Institute. Hún kvað á um að Ísland ætti að verða leiðandi, framúrskarandi í upplýsinga- og tjáningarfrelsi. Árin líða og eins og svo oft tóku hlutirnir langan tíma. En á endanum voru kynnt frumvarpsdrög frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu, fjögur stykki, sem hafa ekki enn þá verið lögð fram. Ég spurði hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra út í þau um daginn. Við sjáum til hvað kemur út úr því. Hæstv. forsætisráðherra hefur nefnt þetta starf af og til aðspurður um skyld mál.

Þessi fjögur frumvörp voru aldrei lögð fram en þáverandi hv. þm. Birgitta Jónsdóttir lagði þau fram á 147. þingi. Nú hef ég ruglast á málum og er ekki með þau öll en eitt þeirra var frumvarp um ærumeiðingar, annað um afnám gagnageymdar og þriðja um hatursáróður. Þetta eru mál sem voru og eru hugsuð til að auka tjáningarfrelsi á Íslandi. Tjáningarfrelsi á Íslandi er svolítið gallað, bæði í lögunum og að mínu mati í dómaframkvæmd. Ég leyfi mér hiklaust að deila við dómarann í þeim efnum, svo að það sé sagt upphátt.

Frá táningsaldri hef ég gagnrýnt tjáningarfrelsismál á Íslandi. Mér þykja þau algerlega fáránleg á köflum. Við höfum oft þá tilfinningu á Íslandi að við séum svo frjálsynd og vestræn og lýðræðisleg en stundum er það einfaldlega ekki satt. Stundum erum við að klappa okkur á bakið fyrir eitthvað sem við höfum ekki unnið okkur inn. Sagan segir sitt um það. Sem dæmi voru svokallaðar ofbeldiskvikmyndir bannaðar fram á 21. öld á Íslandi, bann sem var sett á á fyrri hluta 9. áratugar síðustu aldar þegar myndbandstæki voru að verða almenn og fólk var logandi hrætt við að fólk hefði frelsi til að horfa á það sem því sýndist. Guðlast, af öllum hlutum sem Íslendingum hefur dottið í hug að banna Íslendingum að gera, var bannað á Íslandi til sumarsins 2015. Var það frumvarp lagt fram af þeim sem hér stendur. Klám er enn þá bannað samkvæmt íslenskum lögum, sem er einsdæmi að mér vitandi í vestrænum lýðræðisríkjum. Það eru til einhverjar takmarkanir, einhver bönn við ákveðnum tegundum af klámi annars staðar, eins og í Noregi, en hérna er klám einfaldlega bannað, sem er að mínu mati algerlega fráleitt, algerlega úti á túni og eitt af þeim atriðum sem mér finnst svo skrýtið að þurfa að rökræða eftir miðaldir.

En það er svo sem ekki alvarlegasta löggjöfin þótt hún sé mikið prinsippmál í mínum huga, ákveðinn prófsteinn á það hvort samfélag aðhyllist tjáningarfrelsi raunverulega eða ekki, í grunninn. En það eru alvarlegri gallar við íslensk lög, t.d. hatursorðræðulöggjöfina, sem er líka í almennum hegningarlögum. Nú er ég þeirrar skoðunar sjálfur að það eigi að vera löggjöf gegn hatursorðræðu. Það er hins vegar mikilvægt að hún sé vönduð, skýr, gegnsæ og að skilgreiningin sé á hreinu. Hún er það alls ekki eins og er. Það sést best á nýföllnum hæstaréttardómum, sem ég bloggaði um nýlega í pistli mínum Íslenskt tjáningarfrelsi enn og aftur. Þar voru þrenn ummæli til umfjöllunar. Sýknað var fyrir ein þeirra og dæmt fyrir hin tvö. Ef ég myndi lesa þau upp, sem ég ætla ekki að gera, ég vona að það rói taugarnar, efast ég stórlega um að nokkur manneskja gæti nema af tölfræðilegri heppni giskað á hver af þeim ummælum var sýknað fyrir. Ástæðan er að löggjöfin er mjög óskýr, hún er ofboðslega matskennd, hún er hreinlega ofboðslega háð tilfinningaástandi dómarans hverju sinni. Þetta eru þannig ummæli. Þau eru öll ógeðsleg, það er enginn ágreiningur um það, og fela í sér mikla rætni og eru ekki neinum til fyrirmyndar. En þetta er óskýrt. Við verðum að vita hvað við megum segja. Það er grundvallaratriði. Jafnvel ef við erum ósammála um hversu mikið tjáningarfrelsi við viljum hafa verðum við alla vega að vita hvar það er. Ég tel að við vitum ekki hvar þar er.

Klámbannið er reyndar eitt af góðu dæmunum um það. Um leið og maður nefnir klám byrja allir í fyrsta lagi að roðna og hitt sem gerist er að fólk fer að karpa um skilgreininguna á klámi. Ég velti fyrir mér: Hvaða vit er í því að takmarka tjáningarfrelsi út frá hugtaki sem fólk veit ekki einu sinni hvað þýðir? Það er galið, virðulegi forseti, algerlega galið og kemur efnisinnihaldi kláms ekkert við. Það skiptir aðeins máli að þetta sé skýrt.

Þessi þingsályktunartillaga er mjög góð. Það er mjög mikilvægt að slík endurskoðun eigi sér stað. Ég verð að segja eins og er að mér hefði ekki sjálfum dottið í hug að fara þá leið og mér finnst hún áhugaverð, þ.e. að leggja það á ráðherra að endurskoða þennan kafla almennra hegningarlaga með tilliti til dómaframkvæmdar Mannréttindadómstóls Evrópu. En á sama tíma erum við að bíða eftir IMMI-frumvörpunum, við erum að bíða eftir að hæstv. forseta geri aðeins skýrara hverjar pælingarnar eru í kringum að efla og styrkja og tryggja tjáningarfrelsi og upplýsingafrelsi á Íslandi. Þetta er allt í ákveðinni móðu eins og er. Þess vegna er erfitt að tilgreina nákvæmlega hvaða leið maður vill fara hverju sinni. Ef ekki væri fyrir þessar aðstæður hefði ég þegið það boð að vera meðflutningsmaður að málinu og ég mun vissulega styðja það. Ég styð málið klárlega. En stundum eru margar leiðir farnar á sama tíma að sambærilegum markmiðum.

Að því sögðu er ég síðasti maðurinn til að vilja gera hlutina á minn hátt en ekki eins og aðrir. Ég býst fastlega við því að þessi ágæta hugmynd sé í fyrsta lagi algerlega samrýmanleg og samhæf við þau verkefni sem þegar eiga að vera í gangi hjá framkvæmdarvaldinu. Ég vona að svo sé. En það væri gott ef hægt væri að sauma þetta einhvern veginn saman, í það minnsta að ná því markmiði.

Síðan er eitt sem mig langar að árétta, því að skoðanir mínar á tjáningarfrelsi þykja oft frekar nýstárlegar. Mér þykja takmarkanirnar sem gildandi íslensk stjórnarskrá heimilar vera of miklar, of víðar. Sem dæmi má takmarka tjáningu á Íslandi út frá siðgæði, sem er eitt af algerlega óskilgreinanlegum orðum, það fer eftir því við hvern maður talar hverju sinni. Það er algerlega ógegnsætt og dregur rosalega mikið úr vernd ákvæðisins. Í raun og veru er hægt að segja að hvað sem er sé ekki í samræmi við siðgæði, t.d. guðlast. Fullt af fólk verður mjög móðgað við guðlast. Ég skil það mjög vel. En við höfum ekki réttinn til að heyra aldrei eitthvað sem móðgar okkur. Það er ekki þannig. Við höfum ekki þann rétt og eigum ekki að hafa hann. Við eigum ekki að hafa réttinn til að banna öðrum að horfa á eitthvað sem okkur finnst persónulega ógeðslegt og jafnvel skaðlegt. En íslenska stjórnarskráin heimilar þó nokkrar tálmanir á tjáningarfrelsi. Og reyndar þykir mér 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu gera það líka.

Ef ég fengi að ráða öllu, sem er sem betur fer er ekki tilfellið, myndi ég vilja endurskoða bæði tjáningarfrelsisgrein íslensku stjórnarskrárinnar og 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu í því augnamiði að auka tjáningarfrelsi og draga úr heimildum til að takmarka það. En það er alfarið pólitísk nálgun og eitthvað sem ég átta mig á að er ekki raunhæft, alla vega ekki í náinni framtíð. En á meðan við höfum þó alla vega þessa hluti, 73. gr. stjórnarskrár Íslands og 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, hljótum við að vilja hafa hlutina í það minnsta í samræmi við þá. Að því leyti tek ég undir þetta ágæta mál.

Ég ætla ekki að hafa þetta lengra. Það vill svo heppilega til að ég er að verða búinn með tímann. En ég vildi koma þessum álitamálum að í tilefni þess að við ræðum þetta góða mál.