148. löggjafarþing — 26. fundur,  20. feb. 2018.

störf þingsins.

[13:38]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Í þingsal í gær var rætt um samgöngumál til Vestmannaeyja og mikilvægi þess að sama fargjald gilti í Herjólf hvort sem farið væri til Landeyjahafnar eða Þorlákshafnar. Ég vil taka heils hugar undir það og hvetja hæstv. samgönguráðherra til dáða í þeim efnum.

Í því samhengi er mikilvægt að ræða flugsamgöngur til Eyja. Flugfélagið Ernir hefur sinnt þessu undanfarin ár og gert það með sóma. Þetta er elsta flugfélag á Íslandi og er að taka í notkun mjög öfluga nýja flugvél sem tekur 32 í sæti og ber að fagna því. En því miður er allt of dýrt að taka flug til Eyja. Það kostar 32.800 kr. að fljúga frá Reykjavíkurflugvelli til Vestmannaeyja. Og því miður eru niðurgreiðslur ekki í flugi. Af þessum 32.800 kr. fær ríkissjóður 15.400 kr. í formi skatta.

Það er afar ósanngjarnt að þessi samgöngumáti skuli skattlagður með þessum hætti á sama tíma og almenningssamgöngur, eins og strætisvagnar, fá allt að 85% niðurgreiðslu. Við eigum að hvetja almenning til þess að nýta sér þann góða samgöngumáta sem flugið er. Það gerum við með því að fella niður gjöld á flugsamgöngur. Ég vil hvetja hæstv. samgönguráðherra, sem er því miður ekki hér í dag, að beita sér fyrir því að gjöld á innanlandsflug verði felld niður.