148. löggjafarþing — 30. fundur,  27. feb. 2018.

frelsi á leigubifreiðamarkaði.

201. mál
[15:23]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Það lítur út fyrir að bæði ég og flutningsmaður séum jafn skilningsvana. En það vantaði eitt atriði í svarið: Hvernig á fjölgun leigubíla að verða til þess að menn noti almenningssamgöngur í ríkari mæli?

Þeir sem reka leigubíl í dag eru sjálfstæðir atvinnurekendur. Ætlum við þá að slaka á því í öðrum greinum, þar sem menn eru sjálfstæðir atvinnurekendur, að þeir séu ekki fjár síns ráðandi, hafi gerst brotlegir við lög en haldi áfram að reka starfsemi sína eins og ekkert hafi í skorist? Eru það skilaboðin sem við viljum senda út í þjóðfélagið? Ég er ekki bara með þessa ágætu stétt, leigubílstjóra, undir. Það gætu verið ýmsir fleiri. Mér detta nú í hug þeir sem reka skemmtibáta eða, svo að ég taki bara af handahófi, reka sjálfstæðan iðnað. Ég segi aftur: Hvaða aðferð er það að fara í skattskrá og leita að greinum atvinnu- og þjóðlífsins sem hafa blómstrað og hella inn í þær samkeppni? Ég spyr aftur.

Ég nefndi húsgagnaverslun hér áðan. Ef menn fyndu allt í einu út að bakarí hefðu margfaldað veltu sína á árunum 2011–2016, ætlum við þá bara að fara að baka flatkökur í öðru hverju húsi og fara í samkeppni við þá ágætu stétt? (Gripið fram í.) Margar atvinnugreinar á Íslandi eru lögverndaðar og búa við sæmilegt öryggi vegna þeirra laga. Ég tek til dæmis eftir einu hér. Ég sagði: gjaldþrota maður á lánsbíl með fjársvikadóm á bakinu. Ég sé ekkert í greinargerðinni um tryggingar á bílnum. Hver borgar brúsann ef gjaldþrota maður á lánsbíl keyrir á ljósastaur með farþega og örkumlar hann? Hver borgar brúsann, hv. þingmaður?