148. löggjafarþing — 30. fundur,  27. feb. 2018.

frelsi á leigubifreiðamarkaði.

201. mál
[15:25]
Horfa

Flm. (Hanna Katrín Friðriksson) (V) (andsvar):

Já. Ég þakka aftur. Ég verð að segja um þessar hugleiðingar hv. þingmanns, um hvort hugmyndin sé að gefa allt frjálst og breyta síðan reglum um einkarekstur og annan rekstur til að það falli undir það frelsi: Mér þykir leitt að segja það en hv. þingmaður hefur ekki hlustað mjög vel. Ég sagði nákvæmlega að það væri óþarfi að hafa svo ítarlegar sérreglur um þennan bransa vegna þess að atvinnureksturinn félli undir önnur lög og reglur sem gilda um opinberan rekstur. Við erum faktískt með fínt regluverk hér á Íslandi hvað það varðar.

Hvernig getur fjölgun og fjölbreytni á leigubílamarkaði aukið almenningssamgöngur? Ég á mjög auðvelt með að svara því. Það vill þannig til að mjög margir sem vilja nýta sér almenningssamgöngur geta gert það upp að vissu marki. Það koma alltaf einhver sértilvik þar sem þær henta ekki. Þá er mjög gott að geta gripið til leigubíla, hvort sem það eru safnbílar eða ódýrari bílar eða bílar sem maður veit að eru á einhverri ákveðinni rútu. Það eru alls konar útfærslur til og víðast hvar fleiri en ein eins og við búum við hér. Það gerir að verkum að fleiri geta nýtt sér þetta sambland af almenningssamgöngum og leigubílaakstri. Það er reynslan víða erlendis þó að hún sé ekki endilega algild. Hún er alla vega þannig að margir hafa kallað eftir því.

Jú, varðandi það að í greinargerðinni komi upplýsingar um veltu. Því er einfalt að svara. Það var einfaldlega verið að skoða það. Það er eitt sem liggur til grundvallar þessum hugmyndum um breytingar: Á undanförnum árum hefur orðið um það bil 15% aukning á leigubílaleyfum hér á höfuðborgarsvæðinu meðan fjöldi borgarbúa með farþegum hverju sinni hefur fjór- til fimmfaldast. Það er einfaldlega ein af þeim staðreyndum sem liggja undir og eru grundvöllur þess að við erum að skoða þessar breytingar eða leggja þær til.