148. löggjafarþing — 30. fundur,  27. feb. 2018.

frelsi á leigubifreiðamarkaði.

201. mál
[15:28]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir þessa tillögu til þingsályktunar og langar aðeins að spyrjast fyrir um innihaldið betur, þ.e. hvort þingmaðurinn hafi upplýsingar um hvernig þessum málum er háttað í samanburðarlöndum, þ.e. á Norðurlöndum, í Evrópu og Bandaríkjunum. Hvort þar sé viðlíka takmörkun á útgáfu leyfa eins og þekkist hér á landi.

Þá vil ég einnig spyrja hv. þingmann hvort hún hafi hugmynd um hvernig eftirliti með þeim reglum sem nú eru til staðar sé háttað. Er eitthvað verið að fylgjast með því hvort leyfishafi hafi þetta að aðalatvinnu? Veit hún hvernig fer þegar leyfishafi lánar öðrum bíl sinn eða fær annan til að aka honum í einhvern skamman tíma? Og hvort þeir einstaklingar fái greitt samkvæmt kjarasamningum o.s.frv., hvort þetta sé allt uppi á borði.

Varðandi þessa þingsályktunartillögu vil ég einnig spyrja hv. þingmann hvort hann sé nokkuð, kannski í kjölfarið á spurningum hv. þm. Þorsteins Sæmundssonar áðan, að leggja til algert eftirlitsleysi á leigubílamarkaði. Er ekki áfram ætlast til þess að sá sem hyggst aka leigubíl þurfi að sækja um leyfi og sýna fram á að viðkomandi sé til þess hæfur?

Ég læt þetta duga í bili.