148. löggjafarþing — 30. fundur,  27. feb. 2018.

frelsi á leigubifreiðamarkaði.

201. mál
[16:16]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Tillaga hv. þm. Hönnu Katrínar Friðriksson er róttæk breyting á starfsumhverfi heillar stéttar í landinu, leigubifreiðastjóra. Við sjáum það að fólki stendur ekki á sama. Við sjáum það á þeim fjölda sem er hér á pöllunum. Það er fullkomlega eðlilegt að fólk sem starfar í þessari grein hafi áhyggjur af þessari tillögu, því að eins og ég sagði kemur hún til með að gerbreyta starfsumhverfi þess. Þetta er rótgróin stétt með um 600 manns í vinnu og ef við horfum á fjölskyldurnar þarna á bak við getum við sagt að séu allt að 3.000 manns sem hafa atvinnu eða lifibrauð af þessari starfsgrein.

Þjónusta leigubifreiðastjóra er góð á Íslandi. Þjónustustigið er hátt. Þeir hafa gott orðspor og þeir veita góða þjónustu á ýmsum sviðum, eins og t.d. til handa ríkinu, svo ekki sé nú minnst á fatlaða. Þá eru til sérbúnir bílar í leigubifreiðaakstri sem þjóna sérstaklega fötluðum, þannig að þjónustustigið er mjög gott.

Hér var rætt áðan um að nauðsyn þess að efla virðingu þingsins. Ég hef talað fyrir því úr þessum ræðustól oftar en einu sinni. Og þegar svo róttæk tillaga er borin fram þá er eðlilegt að haft sé samráð við þá sem eiga hagsmuna að gæta varðandi hana. Ég veit til þess að stétt leigubílstjóra hefur boðist til þess að funda með hv. flutningsmanni, Hönnu Katrínu Friðriksson, um þessa tillögu og skýra sitt sjónarmið. Þeirra óskum í þessum efnum hefur ekki verið svarað. Það er rétt að benda á það. Það tel ég miður. Ég tel það dæmi um að fólk beri ekki nægilega virðingu gagnvart þessari stofnun þegar ekki er haft samráð um svo mikilvægt mál við þá sem eiga hlut að máli.

Það er líka rétt að benda á það að leigubifreiðastjórar eru ekki á móti breytingum. Hér hafa tæknibreytingar og nýjungar í tækni verið ræddar og þeir eru ekki á móti breytingum. Ég veit til þess að í nefnd ráðherra sem nú fer yfir þetta mál þá hafa leigubílstjórar ekki útilokað að gerðar verði breytingar á fjölda leyfa.

Gleymum því ekki að þetta er lögvernduð starfsstétt. Það er ástæða fyrir því, vegna þess að ef það verður allt gefið frjálst þá er náttúrlega ljóst að tekjur þeirra sem eru í þessari stétt munu lækka verulega og auðvitað hefur fólk áhyggjur af því.

Ég vil einnig taka undir það sem hv. þm. Jón Gunnarsson sagði áðan um að hann teldi tillöguna vera ótímabæra. Ég vil taka undir það og er sammála í þeim efnum vegna þess að þetta starf er í gangi í ráðuneytinu. Við eigum að sjá hvað kemur út úr því. Þar er sem betur fer samráð. Ég vænti þess að þar komi báðir aðilar til með að ganga sáttir frá borði.

Hér var einnig rætt um nauðsyn þess að lækka verð, það yrði fjölbreyttara verð í þessari grein. Þá verðum við að horfa til þess að það er dýrt að fjárfesta í þessari grein. Bara tryggingar á ári fyrir leigubifreið eru u.þ.b. 500 þús. kr. Þessir bílar eru eknir um 100 þús. km á ári, sem þýðir að þeir falla mjög hratt í verði o.s.frv., þannig að það er dýrt að vera með þann búnað sem þarf til þess að stunda þessa atvinnu. Ég er ekkert viss um að það takist að lækka verð hér einhver ósköp með því að hleypa Uber inn á þennan markað. Gleymum því ekki að Uber, þ.e. fyrirtækið sem stendur þar á bak við, tekur 25% í sinn vasa fyrir hverja ferð.

Mig langar einnig að spyrja hv. flutningsmann að því hvort hún telji að það sé mikil vöntun á leigubílum á markaði. Ég er ekki alveg sammála því. Ég veit til þess að leigubílstjórar sem bíða t.d. við Leifsstöð þurfa að bíða í allt að tvo, þrjá klukkutíma eftir að fá farþega sem þeir geta síðan ekið til Reykjavíkur eða Keflavíkur eða hvert sem er. Þannig að yfir höfuð þá tel ég ekki vera vöntun. Það er kannski einhverjir álagstímar hér í Reykjavík, en þegar á heildina er litið tel ég ekki að það sé vöntun á þessum markaði.

Það er í mínum huga líka mikilvægt og alveg nauðsynlegt að horfa til reynslu annarra þjóða í þessari umræðu. Þá höfum við dæmi frá Svíþjóð. Árið 1986 opnuðu Svíar algjörlega fyrir sinn markað og hleyptu öllum inn í greinina. Því miður varð reynslan af því afar slæm. Það er athyglisvert að skoða á netinu fréttir tengdar leigubílstjórum í Svíþjóð. Þar kemur fram að varað er við því að taka leigubíla í Svíþjóð eftir að þetta var gefið svona frjálst. Það fer slæmt orðspor af leigubílstjórum. Hér er ein frétt t.d. sem ég sá frá 2012 sem segir: „Farþegi stunginn af leigubílstjóra.“ Frá 2014: „Villta vestrið í leigubílaakstri.“ „Leigubílstjóri aðstoðar við vændiskaup.“ „Leigubílstjóri handtekinn fyrir mansal.“ Þetta eru fréttir frá Svíþjóð þar sem allt var opnað.

Það er mjög mikilvægt í þessu sambandi að halda í stöðvaskyldu leigubifreiðastjóra, því að með henni skapast mikilvægt aðhald og auk þess sinna stöðvarnar mikilvægi upplýsingagjöf, t.d. til lögreglu ef eitthvað kemur upp á, og þar er leyst úr ágreiningi milli bifreiðastjóra og viðskiptavinar, svo dæmi sé tekið. Ef stöðvaskyldan er lögð niður — og það felst náttúrlega í því að opna fyrir þennan markað og hleypa Uber inn á markaðinn, þá er stöðvaskyldan lögð niður um leið — tapast mikilvæg þekking og mikilvægt öryggi.

Ég vil því spyrja hv. þingmann að því hverra hagur það er að leggja niður stöðvaskylduna. Hvernig kemur það farþegum til góða? Kemur það bifreiðastjórum til góða? Hvernig kemur það stéttinni í heild sinni til góða?

Af því ég sé að hv. þingmaður er kominn hér og var ekki viðstödd áðan þá ætla ég að endurtaka spurningu mína frá því áðan, hvort hún telji að það sé mikil vöntun á leigubílamarkaði yfir höfuð. Ég sagði það hér áðan að ég hefði ekki þær upplýsingar.

Hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson nefndi það að leigubílstjórar væru strangheiðarlegir. Ég er svo sannarlega sammála því. Þetta er góður punktur. Hann hrósaði þeim fyrir þjónustuna, en samt vill hann opna markaðinn. Mér heyrðist á honum að aðalástæða hans væri sú að það vantaði hvata til þess að leigubifreiðastöðvar eða leigubílstjórar færu að nota tæknina meira. Kannski hef ég misskilið hv. þingmann, en alla vega sagði hann að það væri ekki í boði að sjá hvar leigubíllinn væri staddur o.s.frv. Mér heyrðist að þetta væri hans aðalatriði í þessari umræðu.

Þá minni ég aftur á að þetta er stétt 600 manna. Við verðum að fara afar varlega í það að opna á þennan markað. Leigubílstjórar eru tilbúnir til breytinga. Bíðum eftir niðurstöðu þessarar nefndar og sjáum hvort þar náist ekki sátt sem allir geta unað við.