148. löggjafarþing — 30. fundur,  27. feb. 2018.

frelsi á leigubifreiðamarkaði.

201. mál
[16:28]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Þótt það sé rétt að misindismenn fari í ýmiss konar störf, og við höfum heldur betur fengið ýmsar upplýsingar um það síðustu vikur, held ég að það sé vandamál sem við leysum helst með góðu regluverki sem nær yfir alla þá sem stunda ákveðin störf. Hv. þingmaður spurði hvort vöntun væri á leigubílamarkaði. Ég er alveg sammála honum um að ekki virðist vera skortur þar, en það er engu að síður einhvers konar markaðsbrestur.

Ég spyr hv. þingmann: Trúir hann því að tilvist skutlarahópsins sé ummerki um að allt sem sé fullkomlega með felldu á leigubílamarkaði og að engra breytinga þar á sé þörf? Ég myndi gjarnan vilja að reglur næðu yfir þá sem eru í skutlarahópnum. Ég held einmitt að þetta sé mjög varfærnisleg tillaga sem snýst í mínum huga fyrst og fremst um neytendavernd (Forseti hringir.) vegna þess að þar er misbrestur á, það er markaðsbrestur, sem tengist reyndar ekki fjölda leigubíla á markaði.