148. löggjafarþing — 30. fundur,  27. feb. 2018.

frelsi á leigubifreiðamarkaði.

201. mál
[16:42]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst þetta nú ekki vera sambærilegt dæmi um lögmenn og leigubílstjóra. Lögmenn hafa þann starfsvettvang sem greiðir t.d. mun hærri laun en sem leigubílstjórar geta aflað sér, með mun minni tilkostnaði og geta fengið störf víða um land. Markaðssvæði leigubílstjóra er bundið við ákveðin svæði. Kostnaður við að komast inn í greinina er hár o.s.frv., þannig að ég get ekki alveg tekið undir það með hv. þingmanni að hægt sé að bera þessar tvær ákveðnu starfsstéttir saman. Það er alveg ljóst að ef opnast fyrir þessa starfsgrein þannig að allir geti komið í hana muni tekjur viðkomandi minnka verulega og þar með atvinnuöryggi. Mér finnast þetta ekki vera alveg sambærileg dæmi.