148. löggjafarþing — 30. fundur,  27. feb. 2018.

frelsi á leigubifreiðamarkaði.

201. mál
[16:57]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ræða hv. þingmanns endurspeglar nú ekki mjög mikla trú á samkeppni eða frelsi, finnst mér. Það þarf kannski ekki út af fyrir sig að koma á óvart. Flokkur hans hefur ekki talað fyrir slíkum málum almennt. Það sem ég velti hins vegar fyrir mér þegar ég hlusta á þær áhyggjur sem hv. þingmaður hefur af alls kyns kröfum eða skilyrðum sem sett væru þeim einstaklingum sem starfa í þessari atvinnugrein — þarna finnst mér slá saman annars vegar þörfinni á að stýra atvinnugrein með fjöldatakmörkun inn í hana og hins vegar að stýra henni með kröfum t.d. um hæfi bílstjóra eða öðrum þeim kröfum sem við viljum gera til þeirra sem starfa í henni. Við gerum alla daga alls kyns kröfur til starfsfólks í hinum ýmsu greinum varðandi menntun, formleg leyfi, skyndihjálp, hvaðeina sem okkur dettur í hug sem löggjafa eða reglusetningu. Ég hugsa að í þessu samhengi, þegar við tölum um samgöngur sérstaklega, sé auðveldara fyrir mig að stofna flugfélag en að fá leyfi til að reka leigubifreið. Bara umtalsvert auðveldara. Ég held að það sé talsvert meira frelsi þar og er ég þó ekki í nokkrum vafa um að flugsamgöngur eru sennilega með viðkvæmustu samgöngum sem við höfum og samgöngur sem við gerum hvað mestar kröfur til.

Þess vegna leikur mér hugur á að vita: Okkur dettur aldrei í hug að setja einhverjar hömlur á fjölda þeirra flugfélaga sem mega fljúga til eða frá landinu eða með hvaða hætti þau vilja hátta starfsemi sinni. Við höfum frelsi þar og höfum blessunarlega frjálsa samkeppni á því sviði. Þess vegna spyr ég: Af hverju þarf þá fjöldatakmörkun á leigubílum til að mæta öryggissjónarmiðum (Forseti hringir.) þeim sem hv. þingmaður hefur áhyggjur af, en ekki t.d. þegar kemur að flugrekstri eða fjöldanum öllum af öðrum atvinnurekstri sem við höfum frelsi í?