148. löggjafarþing — 30. fundur,  27. feb. 2018.

frelsi á leigubifreiðamarkaði.

201. mál
[18:35]
Horfa

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir boðið, en ég skal svara honum hér og segja að ég ætla að afþakka það, enda hefur Sjálfstæðisflokkurinn staðið fyrir mestu framförum í frelsisátt af öllum flokkum. Í því sambandi má nefna fjölda mála; útvarpið sem við hlustum á á leiðinni í vinnuna væri til dæmis ekki frjálst nema fyrir barning Sjálfstæðismanna.

Við höfum barist fyrir fjölda frelsismála í gegnum tíðina en haft fáa flokka með okkur hér á þingi sem hafa stutt þau. Mörg mál hafa tekið langan tíma, eitthvað sem okkur finnst sjálfsagt í dag, eins og að horfa á litasjónvarp, hlusta á Bylgjuna og drekka bjór. Við þurfum bara að halda áfram og það er gott að fá hingað fólk sem er sammála okkur í því að stefna í þessa átt.

Hv. þingmaður spyr um sannfæringu mína um það hvað út úr þessari nefnd komi. Ég hef mjög mikla trú á því að þar komi fram hugmyndir um að afnema fjöldatakmarkanir, með einhverjum skilyrðum sem fólk getur sætt sig við. Ef það nægir okkur ekki, hv. þm. Þorsteinn Víglundsson, þá skulum við bara ganga lengra með þau lög.