148. löggjafarþing — 30. fundur,  27. feb. 2018.

almenn hegningarlög.

213. mál
[19:04]
Horfa

Flm. (Steinunn Þóra Árnadóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Bryndísi Haraldsdóttur fyrir góða spurningu.

Já, ég las þessa umsögn. Ég sat reyndar ekki í hv. allsherjar- og menntamálanefnd síðast þegar málið var lagt fram þannig að ég fylgdist ekki með umræðum um þetta mál í nefndinni.

Því er til að svara af hverju málið er lagt fram óbreytt, þrátt fyrir þessa umsögn, að ég tel ráðuneytið þarna vera á villigötum, er hreinlega ósammála umsögninni. Annars vegar er þetta í mótsögn við það að Mannréttindadómstóll Evrópu hefur með dómafordæmi, sem ég rakti hér frá árinu 2002, talað um það að vernd fyrir þjóðhöfðingja sé ónauðsynleg í lýðræðisþjóðfélagi.

Hins vegar fannst mér umsögn utanríkisráðuneytisins fjalla eiginlega um seinni hluta 95. gr., sem ég gerði hér að sérstöku umtalsefni, sem fjallar um það sem snýr að eignaspjöllum á sendiráðum og að við höfum þar skuldbindingar um að vernda þá sem hingað koma sem talsmenn annarra þjóða. Ég tel þá einfaldlega að ef það er svo að öryggi þeirra sé ekki nægilegt tryggt þá eigi bara að gera það í öðrum lögum. Það eigi frekar að leggja áhersluna í hinum almennu lögum en að þetta eigi ekki heima í þessu ákvæði og eiginlega megi segja að það færi enn frekari rök fyrir því að þessi síðari tíma viðbót við lögin frá árinu 2002 sé einfaldlega (Forseti hringir.)á röngum stað í lagasafninu.