148. löggjafarþing — 31. fundur,  28. feb. 2018.

mótun eigendastefnu ríkisins fyrir bújarðir.

[16:20]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Hér hefur gefist tækifæri til að ræða nokkur meginatriði þessa stóra málaflokks og við höfum komið inn á það, nokkrir ræðumenn, að ríkið er mikill jarðaeigandi með um 450 jarðir. Tilurð eignarhaldsins er ólík, misjöfn, það hefur komið til af ýmsu, m.a. af kirkjujarðasamkomulaginu. Stundum kom ríkið til hjálpar þegar bændur þurftu að bregða búi og ýmsar skýringar á því. Hverjar sem þær allar samanlagt eru blasir við okkur að það er mjög brýnt að ljúka vinnu við eigendastefnuna. Með henni er ætlunin að gera eins konar flokkun á þessu eignasafni og spyrja spurninga um þörfina fyrir eignarhald ríkisins.

Það kunna að vera í eignasafninu jarðir sem eru hreinlega mjög dýrar í rekstri en engin skýr ástæða væri fyrir áframhaldandi ríkiseign og þar eru þá augljósustu dæmin um að ríkið ætti að láta frá sér jarðirnar. Síðan eru önnur dæmi þar sem um er að ræða mikilvægar landbúnaðarjarðir. Þá þurfum við að leysa úr þeim álitamálum sem við höfum talað um hér í dag, hvort þær jarðir verði þá boðnar til sölu, leigu eða ábúðar og með hvaða skilyrðum það verði gert.

Ég ætla bara að ljúka hér umræðunni með því að segja að ég heyri skýrt ákall um að stjórnkerfið standi sig betur í stefnumótun og einfaldlega í viðbrögðum við erindum sem hafa borist í þessum málaflokki og mun setja málið í forgang.