148. löggjafarþing — 31. fundur,  28. feb. 2018.

endurnot opinberra upplýsinga.

264. mál
[16:33]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa góðu spurningu. Það er svo að Noregur er með annars konar kerfi en hin Norðurlöndin og það er ástæðan fyrir því að sérstaklega er rætt um Danmörku og Svíþjóð í greinargerðinni. Í Noregi er miðað við að heimilt sé að endurnýta allar upplýsingar sem almenningur hefur rétt til aðgangs að og því er ekki gert ráð fyrir þessum sérstöku beiðnum um endurmat.

Ástæðan fyrir þessu: Jú, Noregur er einfaldlega fremstur í flokki þegar kemur að málefnum upplýsingalaga. Norsk stjórnvöld birta að eigin frumkvæði lista yfir gögn í málum sem þau hafa til meðferðar á sérstökum vef, offentlig elektronisk postjournal — ég vona að þetta hafi verið með góðum norskum hreim. Hér hefur ekki verið gengið jafn langt í birtingu upplýsinga að frumkvæði stjórnvalda og í Noregi og okkar lagaumhverfi er þá meira sambærilegt við það sem gerist í Danmörku og Svíþjóð.

Hins vegar er mælt fyrir um það í 2. mgr. 13. gr. upplýsingalaga að stjórnvöld skuli vinna markvisst að því markmiði. Ég vil segja það hér, af því að hv. þingmaður nefnir þetta, að ég tel að við eigum að stefna þangað. Fyrirhuguð endurskoðun upplýsingalaga gerir þetta umhverfi vonandi betra en það er í dag, og ég vona að það muni takast á þessu kjörtímabili. Sú vinna hefur þegar verið sett af stað af minni hálfu í forsætisráðuneytinu.

Síðan má ekki gleyma því að þessi birting kallar líka á tæknilegar úrlausnir, hún kallar á ákveðna fjárfestingu í kerfisbreytingum. Það er eitthvað sem við verðum að gera ráð fyrir að muni kosta sitt þegar að því kemur en það er mín skoðun að við eigum að stefna að þessu markmiði.