148. löggjafarþing — 31. fundur,  28. feb. 2018.

endurnot opinberra upplýsinga.

264. mál
[16:35]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð nú að segja eins og er að ég vil ekki taka allt upp á Íslandi sem fyrirfinnst í Noregi. Þetta er hins vegar eitt af því sem mér finnst aðdáunarvert og eitthvað sem við eigum vissulega að stefna að, samanber það sem hæstv. ráðherra nefndi.

Hæstv. forsætisráðherra nefnir 2. mgr. 13. gr. upplýsingalaga í greinargerð frumvarpsins. Ég velti fyrir mér hvort hún dugi. Mín takmarkaða reynsla af slíkum greinum er sú að þær gleymast, það er þá sagt að þær hafi ekki verið virkjaðar eða eitthvað því um líkt. En einhvern veginn efast ég um að stjórnvöld almennt séu að lesa öll lögin og passa með tékklista að vinna markvisst að málum af þessu tagi.

Þetta hljómar eins og eitthvað sem ætti heima í þingsályktun frekar en í lögum, að mínu mati. En vel á minnst, hæstv. ráðherra fór inn á fyrirhugaða endurskoðun upplýsingalaga, sem er áhugaverð og ég vona að verði til mikils. Mig langar að nýta tækifærið og spyrja hæstv. ráðherra aðeins nánar út í það hvernig hún sjái fyrir sér þá endurskoðun og kannski útlista aðeins betur á hvaða grundvelli hún verður gerð. Hvert er markmiðið með henni? Hver er lokaafurðin? Að hverju er stefnt?

Ég bið hæstv. ráðherra að fara aðeins meira út í það. Mér finnst þetta mikilvægur málaflokkur og þetta er vanmetinn málaflokkur. Frumvörp eins og þessi eru vanmetin, þau valda miklu meira gagnsæi en lítur út fyrir að vera, því að fólk almennt skilur ekki endilega hvað það myndi sjálft nota gögnin í. En aðilar sem hafa aðgang að þessum gögnum og kunna að nota þau vita að þau geta varpað ljósi á mjög áhugaverða hluti, eins og dæmin sanna.