148. löggjafarþing — 31. fundur,  28. feb. 2018.

endurnot opinberra upplýsinga.

264. mál
[16:37]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni aftur fyrir. Ég er sammála hv. þingmanni um að það sem hefur gerst, t.d. með þessa grein, þar sem talað er um ákveðna stefnu, að vinna eigi markvisst að einhverju markmiði, er að í endurskoðun um upplýsingalög megi hreinlega koma skylda.

Þessari grein átti að fylgja reglugerð sem ég hef verið með til skoðunar í forsætisráðuneytinu. Þar er enn töluverð vinna óunnin í því hvernig við skilgreinum nákvæmlega þetta hlutverk ráðuneytanna. Ég vonast þó til að við getum sett þá reglugerð á meðan þessi upplýsingalög eru í gildi og áður en við setjum þetta markmið fram með skýrari hætti í endurskoðuðum upplýsingalögum. Markmiðið á að vera að birta sjálfkrafa ópersónugreinanlegar upplýsingar, þannig að það samrýmist markmiðinu um að við séum með eins aðgengilegar upplýsingar frá hinu opinbera og unnt er án þess að ganga á persónuverndarsjónarmið.

Það er markmiðið. Það á að vera skylda í framtíðinni. Það eru hins vegar úrlausnarefni sem við þurfum að taka afstöðu til, hvernig framsetning þessara upplýsinga verður, hvernig við ætlum að tryggja að þær séu aðgengilegar fyrir alla hópa samfélagsins. Eitt af því sem talað er um í gildandi upplýsingalögunum er að upplýsingarnar eigi til að mynda að vera aðgengilegar fötluðum. En hvernig ætlum við að gera þær aðgengilegar fötluðum? Fyrirhugað er ákveðið samráð um það hvernig við getum gert það.

Þetta er úrlausnarefni og verkefni sem ég held við eigum að fagna og takast á við og það er auðvitað markmiðið. Ég er algjörlega sammála þingmanninum um það hvert markmiðið á að vera.